New York Times tilkynnti í gærkvöldi um kaup sín á íþróttafjölmiðlinum The Athletic . Kaupverðið hljóðar upp á 550 milljónir dala eða rúmlega 70 milljarða króna og munu kaupin ganga formlega í gegn á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í grein CNBC , en The Informant greindu fyrst frá kaupunum.

NYT hefur sett sér markmið að ná 10 milljónum áskrifenda fyrir 2025, en í lok september í fyrra tilkynnti fjölmiðillinn að áskrifendurnir væru orðnir 8,4 milljón talsins, en 1,2 milljónir eru í áskrift hjá The Athletic, samkvæmt grein CNBC.

Meredith Kopit Levien, forstjóri NYT, sagði í símtali við fjárfesta að The Athletic myndi áfram starfa sem sitthvort áskriftarmiðillinn, fyrst um sinn. Í pósti sem The Athletic sendi til áskrifenda sinna upp úr miðnætti í gær var ítrekað að kaupin muni ekki hafa nein áhrif á áskrifendur.

Ítarleg íþróttaumfjöllun

The Athletic var stofnað árið 2016 af Alex Mather og Adam Hansmann. Fjölmiðillinn hefur lagt áherslu á ítarlega íþróttafréttaumfjöllun og eru fótboltafréttamenn miðilsins til að mynda þekktir fyrir að luma á heimildarmönnum inn í innsta hring enskra fótboltaliða. The Athletic rekur meira en hundrað hlaðvörp sem fjalla ýmist um enska boltann, NFL eða NBA. Fjölmiðillinn er einnig með Youtube síðu og gefur reglulega út vandaðar íþróttafréttaskýringar í myndbandsformi.

Engar auglýsingar eru á fjölmiðlinum og rekur hann sig að mestu leyti á áskriftum lesenda, en áskrift hjá honum kostar tæpa átta dollara á mánuði. Hins vegar hefur hann oft boðið upp á sérstök tilboð í tímabundinn tíma og kostaði áskrift á tímabili einungis tæpan dollara á mánuði.