*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 16. ágúst 2017 08:20

Nýta ekki forkaupsrétt í Arion banka

Vogunarsjóðir sem eiga 30% hlut í Arion ætla ekki að eignast meirihluta bankanum heldur stefna kröfuhafar að hlutafjárútboði í haust, ef ríkið fellur frá sínum forkaupsrétti.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjárfestahópurinn sem keypti samanlagt 29,18% hlut í Arion banka fyrr á árinu ætla ekki að nýta kauprétt sinn til að eignast meirihluta í bankanum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá er um að ræða þrjá vogunarsjóði auk fjárfestingarbankans Goldman Sachs, sem keyptu hlutinn af eignarhaldsfélagi gamla Kaupþings, þar sem margir þeirra eru meðal kröfuhafa.

En því til viðbótar hafa þeir kauprétt fram til 19. september næstkomandi upp á 21,9% til viðbótar sem hefði gefið þeim meirihluta í Arion banka. Nú hafa fjárfestarnir ákveðið að nýta sér ekki þann kauprétt að því er Fréttablaðið greinir frá. Þess í stað er stefnt að hlutabréfaútboði í október eða nóvember, þar sem Kaupþing hyggist bjóða allt að 58% hlut sinn í bankanum til sölu.

Skilyrða ríkið

Tímasetningin er þó háð því hvenær hæfismati Fjármálaeftirlitsins á tveimur af vogunarsjóðunum, Taconic Capital og Attestor Capital, til að eiga virkan eignarhlut í bankanum lýkur. Þeir eiga hvor um sig nú 9,99% eignarhlut.

Einnig er útboðið háð því skilyrði að ríkið nýti sér ekki mögulegan forkaupsrétt og er vonast eftir því að það verði staðfest á fundi með ráðamönnum í þessari viku. Segja þeir að forkaupsréttur ríkisins myndi aftra fjárfestum frá þátttöku að öðrum kosti.

Fjárfestingarloforð nema allt að 100 milljörðum

Talsverður áhugi virðist af hálfu erlendra sjóða að taka þátt í útboðinu, en Fossar markaðir sem verða söluráðgjafar Kaupþings, hafa nú þegar safnað fjárfestingarloforðum fyrir samtals um 700 til 800 milljónir evra. Það jafngildir um 90 til 100 milljörðum íslenksra króna.

Segir í greininni að þar með talið séu þeir sömu sjóðir og hafa verið umsvifamiklir í skráðum félögum undanfarið hér á landi, eins og Eaton Vance, Wellington og Miton, auk annarra nýrra sem ekki hafa fjárfest hér á landi.