Á fyrstu níu mánuðum ársins voru að jafnaði ríflega 1.600 Airbnb íbúðir hérlendis leigðar út í heilu lagi. Á sama tíma á fyrra ári voru tæplega 2.600 og hefur þeim því fækkað um 37% milli ára. Fjöldinn í ár er nánast sá sami og árið 2016, frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

Fram kemur að þrátt fyrir fækkun í framboði íbúða hefur meðalnýting á téðum íbúðum aldrei mælst jafn lág, sé litið aftur til ársins 2009. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins lækkaði nýtingin eilítið milli ára en samdrátturinn jókst til muna eftir að faraldurinn skall á.

Meðalnýting hefur mælst rúmlega þriðjungur en hún mældist 53-63% á árunum 2016-2019 og var mest árið 2017. Hlutfall íbúða með enga nýtingu mældist 44% á öðrum ársfjórðungi á þessu ári sem er tvöfalt hærra en þegar hlutfallið var sem mest árið 2019. Hlutfallið mældist svo 27% á þriðja ársfjórðungi 2020 eða um þrefalt hærra en á síðustu árum.

„Líkleg þróun er að áfram muni draga verulega úr fjölda íbúða í Airbnb hér á landi á næstunni og þær leita inn á langtímaleigumarkað eða verða einfaldlega seldar,“ kemur fram í greiningunni.