Þrátt fyrir talsverða fjölgun gistirýma á undanförnum árum hefur nýting hótelherbergja víðast hvar á landinu haldið áfram að batna ár frá ári. Áhyggjuraddir hafa heyrst víða vegna mögulegrar offjárfestingar í hótelbyggingum, enda hefur verið mikið um nýbyggingu hótela í miðbæ Reykjavíkur og víðar að undanförnu og fleiri áform eru á teikniborðinu. Fjárfestingarnar virðast hingað til ekki hafa komið niður á nýtingarhlutfalli hótelherbergja, en hafa ber í huga að enn er von á talsverðri framboðsaukningu hótelherbergja á næstu misserum, svo ekki sé minnst á annars konar gistirými. Meiri óvissa ríkir um eftirspurnina þar sem erfitt er að spá fyrir um komur ferðamanna hingað til lands mörg ár fram í tímann. Að undanförnu hefur vöxturinn þó haldið áfram að koma jafnvel bjartsýnustu mönnum á óvart, en metaukning var í komum ferðamanna í maí, júní og júlí síðastliðnum hvort sem litið er til höfðatölu eða hlutfallslegrar fjölgunar. Var markið þó ekki sett lágt. Þetta kemur fram í markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka.

Talsverð fjölgun hótelherbergja - mun meiri fjölgun ferðamanna

Framboð hótelherbergja hefur aukist nokkuð undanfarin ár hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar. Á landsvísu fjölgaði hótelherbergjum um 28% á árabilinu 2010-2014 eða um rúmlega 6% á ári að meðaltali. Framboðið hefur aukist hlutfallslega mest á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi, en einnig þó nokkuð á höfuðborgarsvæðinu. Lítil framboðsaukning hefur verið á Austurlandi og samdráttur á Norðurlandi. Á sama tíma fjölgaði erlendum ferðamönnum um 111% eða um meira en 20% á ári að meðaltali. Fjöldi erlendra ferðamanna á hvert hótelherbergi á Íslandi hefur því aukist úr 103 árið 2010 í 169 árið 2014.

Mismunurinn á þessari hlutfallsaukningu ferðamanna og hótelrýma endurspeglast í betri nýtingu hótela víða um land undanfarin ár, flesta mánuði ársins. Hótelherbergi eru svo gott sem fullnýtt í júlí og ágúst á höfuðborgarsvæðinu og þó víðar væri leitað. Árstíðasveiflan er enn á undanhaldi. Til að mynda var nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu í febrúar rétt tæplega 90% sem myndi teljast afar hátt nýtingarhlutfall í hvaða ferðamannaborg sem er, sérstaklega í febrúar. Má því segja að þrátt fyrir mikla fjárfestingu í hótelum um þessar mundir sé hótelgeirinn enn nálægt þolmörkum þegar kemur að því að taka á móti auknum fjölda ferðamanna í júlí og ágúst, hvort sem litið er til höfuðborgarinnar eða landsbyggðarinnar.