Tvö markmið, sem hafa verið sett fram og kynnt, gætu skipt mestu máli um að ná landinu upp úr kreppunni gangi þau eftir að mati Magnúsar Halldórssonar blaðamanns á Viðskiptablaðinu. Markmiðin tvö snúa að nýtingu orkunnar og fjölgun ferðamanna.

Magnús sat fund um orkumál hjá VÍB á fimmtudaginn og greinir þau tækifæri sem liggja fyrir í nýrri grein á vb.is. Hann segir að Landsvirkjun telji raunhæft að skapa átta til tíu þúsund störf á fimmtán ára tímabili með fjárfestingum í orkuiðnaði upp á 4,5 til 5 milljarða dollara, eða sem nemur 600 milljörðum króna. „Landsvirkjun myndi hafa arðgreiðslugetu upp á 1 milljarð dollara árlega, eða um 115 milljarða króna, frá árinu 2025 samkvæmt áformunum. Þarna vegur einna þyngst  að Landsvirkjun telur sig geta fengið hærra verð fyrir orkuna en til þessa," segir í greininni. Helstu álitamálin sem Landsvirkjun standi frammi fyrir séu fjármögnun og hvað eigi að virkja.

Þá segir Magnús að markmið um tvöföldun á fjölda ferðamanna árlega á næstu fimm til tíu árum getur haft miklu meiri áhrif á hagvöxt en allar spár sem hann hefur séð um framtíðarhorfur Íslands virðast gera ráð fyrir. „Gaman væri að sjá kortlagt, hvaða áhrif það hefur á hagkerfið að fjöldi ferðamanna fari úr 500 þúsund í eina milljón. Gjaldeyristekjur á ári, miðað við 500 þúsund, eru áætlaðar 155 milljarðar. Um 310 milljarðar gætu orðið eftir í landinu á ári náist þetta markmið, miðað við þessar forsendur. Þetta eru miklir peningar, hvernig sem á það er litið. Í samanburði við bæði álútflutning og sjávarútveg, þá yrði ferðaþjónustan mun stærri gjaldeyrissköpun fyrir hagkerfið," skrifar Magnús.

Greinina í heild má lesa hér .