Landsvirkjun vinnur nú að athugunum á nýtingu vindmylla til raforkuframleiðslu hér á landi.Til nánari skoðunar núna er hvort auðlindin sé til staðar hér á landi og hvaða staðir kæmu helst til greina til að reisa vindmyllu. Úlfar Linnet, sérfræðingur hjá Landsvirkjun, staðfestir að það sé mýta að á Íslandi sé of mikill vindur fyrir vindmyllur. Fyrsta skrefið í að meta hagkvæmni vindmyllu er að kortleggja vindstyrk á Íslandi með svokölluðum vindatlas. Vindatlas sýnir hversu mikil orka er í vindi á hverjum stað. Í dag er meiri kostnaður við vindorku en vatnsafl en vindmyllur gætu verið gott viðskiptatækifæri og arðbærar í framtíðinni.

Suðausturland gott

Staðsetningu vindmyllunnar þarf að velja vel til að hámarka orkuframleiðslu hennar. Vindmælingar þarf til að reikna út orkuna í vindinum, orkuna má síðan reikna yfir í nýtingartíma en nýtingartíminn 100 jafngildir því að vindmyllan vinni á fullum afköstum allt árið. Á Íslandi eru margir staðir með nýtingartíma á bilinu 30 til 40 en heimsmeðaltalið 2009 var 25. Verið er að vinna að svokölluðum vindatlas, sem sýnir gígavattstundir á ári, en tvö til þrjú ár tekur að búa til vindatlas af bestu gerð.

Möguleg vindorkuvirkjun
Möguleg vindorkuvirkjun
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana

„Veðurstofan rekur mælistöðvar um allt land og er mælisagan víða löng eða allt að 10 ár og búið er að fara yfir mikið af mælingum,“ segir Úlfar. Miðað við núverandi upplýsingar er Suðurlandsundirlendið, t.d. Hella og Búrfell, og staðir víða á Suðausturlandi góðir. Nú þegar er verið að nýta sólar- og vindorku til að knýja mælimastur á Búrfelli sem mælir vind í allt að 50 metra hæð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.