Syed Ali, framkvæmdastjóri Berjaya Land, móðurfélags Icelandair hótelanna, sagði nýtingarhlutföll Icelandair hótelanna vera að meðaltali yfir 90% um þessar mundir, í viðtali við malasíska miðilinn EdgeProp á dögunum. Þá sagði hann nýtingarhlutfall á Hilton Canopy í Reykjavík vera komið í 95%.

Tryggvi Þór Herbertsson, stjórnarformaður Icelandair hótela, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið, sem kom út á fimmtudaginn síðastliðinn, áður en Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir boðaði tillögur um hertar aðgerðir á landamærum.

„Nýtingarhlutfallið fór að hækka hratt eftir að ráðist var í tilslakanirnar á landamærunum. Síminn hefur bara ekki stoppað síðan. Það er gríðarlega mikið um bókanir hjá einstaklingum og eru þær orðnar mun fleiri en bæði á toppárunum 2018 og 2019. Hóparnir eru aftur á móti ekki að skila sér eins vel, það er að segja að þeir eru mikið að bóka sig fram í tímann, en það er enn mikið um að þeir séu að afbóka með tiltölulega skömmum fyrirvara," segir Tryggvi.

Tvö hótel eftir að opna

Öll Icelandair hótelin eru nú opin, að undanskildum Natura og Marina í Reykjavík, en Marina verður opnað 28. júlí næstkomandi og Natura 17. ágúst. Hann segir áskorun að fá starfsfólk en það hafi þó ekki verið að aftra opnunum hingað til.

„Það er gríðarlega erfitt að fá starfsfólk en það hefur ekki hindrað opnanir hótelanna. Við eigum þó enn eftir að opna Marina og Natura, sem eru bæði stór hótel og þurfa mikinn mannskap, en við munum leysa það einhvern veginn. Við höfum verið að opna hótelin skipulega til að ná að fylla þau þannig að við endum ekki með lélega nýtingu."

Hann segir komandi misseri líta mjög vel út en að þrátt fyrir bjartara útlit eigi verð enn eftir að ná jafnvægi auk þess sem einhvern tíma muni taka að greiða úr fjárhagslegum afleiðingum faraldursins. „Það er mikið um bókanir og síðan sjáum við fram á að innanlandsmarkaðurinn verði mjög sterkur í haust, til dæmis veisluþjónusta, fundaþjónusta og annað slíkt. Það hafa ekki verið haldnar árshátíðir og ársfundir í langan tíma og við skynjum mikla þörf fyrir það, en við erum auðvitað með stærsta ráðstefnu- og veisluhótelið, Nordica," sagði Tryggvi Þór fyrr í vikunni, áður en boðað var að herða á reglum á landamærunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .