*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 22. maí 2020 13:19

Nýtist ekki Airport Associates

„Veit ekki fyrir hvern frumvarpið er hugsað“ ef ekki fyrir fyrirtæki í flugtengdri þjónustu segir forstjóri Airport Associates.

Jóhann Óli Eiðsson
Sigþór Kristinn Skúlason er forstjóri Airport Associates.
Aðsend mynd

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um greiðslu hluta uppsagnarfrests kemur ekki til með að nýtast Airport Associates í óbreyttri mynd. Þetta kemur fram í umsögn Sigþórs Kristins Skúlasonar, forstjóra félagsins, við frumvarpið.

Frumvarpið var kynnt fyrir viku síðan en í því felst að ríkið mun greiða allt að 85% af launum, þó að hámarki 633 þúsund krónur á mánuði, í uppsagnarfresti hjá fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 75% samdrætti í rekstri sínum. Við mat á því hvort skilyrðið um samdrátt sé uppfyllt er miðað við 1. mars á þessu ári og til uppsagnardags.

„Það sem er athugavert við þessa framsetningu er að marsmánuður gefur ekki rétta mynd til þess að taka inn í meðaltal þeirra mánaða sem mynda meðaltekjur sem síðan á svo að bera saman á móti sömu mánuðum árið 2019,“ segir í umsögn Sigþórs.

Bendir hann á að flugumferð um Keflavíkurflugvöll hafi ekki hrapað fyrr en í síðari hluta mars og að meirihluti skipulagðar starfsemi vallarins hafi haldið sér stærstan hluta mánaðarins. Samdrátturinn í mars hafi ekki verið nema að hámarki fjórðungur miðað við það sem áætlað var. Sigþór segir hins vegar að eftir það, það er í apríl, hafi tekjur félagsins fallið um 80-90%.

„Það ætti því ekki að vera nein spurning um að fyrirtækið ætti að vera í flokki þeirra fyrirtækja sem frumvarpið næði til. Vandamálið felst í því að úrræðið passar ekki fyrir Airport Associates,“ segir Sigþór. Auðvelt væri fyrir þingnefnd að lagfæra það í meðförum þingsins með því að breyta viðmiðunardeginum úr 1. mars í 1. apríl.

„Ef frumvarpið gagnast ekki fyrir fyrirtæki eins og Airport Associates, sem sinnir flugtengdri þjónustu og hefur orðið fyrir ca. 80-90% tekjufalli, þá veit ég ekki fyrir hverja frumvarpið er hugsað. Airport Associates er eitt af þeim fyrritækjum sem skiptir sköpum þegar kemur að því að stuðla að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins og kemur til með að vera í lykilhlutverki á Keflavíkurflugvelli við að tryggja að flugsamgöngur til og frá Íslandi gangi eins vel fyrir sig og hingað til,“ segir Sigþór.