Borgarstjórn samþykkti í dag nýtt Aðalskipulag 2010 – 2030. „Mikilvægasti boðskapur þessa aðalskipulags er þétting byggðar. Við ætlum að þétta byggðina þannig að fólk geti búið nær vinnustöðum sínum í stað þess að teygja borgina upp til heiða. Þetta mun auka lífsgæði borgarbúa gríðarlega, draga úr umferð og styrkja borgarsamfélagið á margvíslegan hátt,“ segir Páll Hjaltason formaður umhverfis- og skipulagsráðs í tilkynningu.

Aðalskipulagið 2010-2030 er endurskoðun á eldra aðalskipulagi fyrir árin 2001-2024. Tillagan var kynnt í samræmi við 30-31. gr skipulagslaga. Aðalskipulagstillagan var kynnt á tímabilinu 9. ágúst til 20. september 2013 en þá rann út frestur til að gera athugasemdir. Tillagan var kynnt samhliða breytingum á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024.

Alls bárust 206 bréf með athugasemdum frá einstaklingum, fyrirtækjum, íbúasamtökum, félagasamtökum og hópum sem stóðu að undirskriftarsöfnunum. Bréfin varða a.m.k. 250 efnisatriði í tillögunni, langflest varða þó flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Öllum athugasemdum hefur verið svarað. Í tilkynningu segir að athugasemdirnar  og svör við þeim hafi verið lagðar fram í umhverfis- og skipulagsráði 25. september og hafi ráðið farið vandlega yfir þær á alls sjö fundum.

Helsta breytingin á auglýstri tillögu snýst um tímasetningar vegna samkomulags Reykjavíkurborgar, ríkisins og Icelandair  Group um innanlandsflug en það gerir ráð fyrir að norður-suður flugbraut flugvallarins í Vatnsmýri verði áfram í aðalskipulaginu fram til ársins 2022 í stað 2016.

Þá eru sett skýrari markmið um mögulega uppbyggingu norðan Suðurlandsbrautar um að ekki verði gengið á opin græn svæði eða þrengt að íþróttastarfsemi í Laugardal. Þá var einnig komið til móts við fjölmargar athugasemdir frá landeigendum á Kjalarnesi vegna nýtingar á þeirra landi.

Engar grundvallarbreytingar voru gerðar á stefnu aðalskipulagsins vegna athugasemdanna.