Þriðja afbrigðið af tölvuóværunni Conficker C, eða Downadup, vaknar til lífsins að hluta til á morgun, 1. apríl en hún lamar vírusvarnir og uppfærslur á vélum eftir sýkingu.

Þetta kemur fram á vef Skyggnis en dæmi eru um að fyrirtæki hér á landi hafi lenti í vandræðum vegna Conficker óværunnar.

„Milljónir véla um heim allan hafa sýkst af völdum Conficker frá því að hún lét fyrst á sér kræla á síðasta ári,“ segir Kristinn Guðjónsson sérfræðingur í upplýsingaöryggi hjá Skyggni á vef fyrirtækisins.

„Þrátt fyrir umfang óværunnar er ekki vitað hverjir standa á bak við hana þó að háar peningaupphæðir hafa verið heitið þeim sem geta komið upp um höfunda hennar. Conficker, sem er ein sú þróaðasta óværa sem sést hefur, er hönnuð af óþekktum sérfræðingum en ekki liggur fyrir hvað þeir ætla sér fyrir með þær tölvur sem hafa verið sýktar.“

Sjá nánar á vef Skyggnis.