Ljóst er að frumvarp um að heimila smásölu vefverslana með áfengi, sem Hildur Sverrisdóttir lagði fram í mars, mun ekki ná fram að ganga fyrir þinglok. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann stefni á að leggja fram sambærilegt frumvarp í haust og mun setja í gang vinnu í ráðuneytinu í sumar til að rýna betur í löggjöfina hvað þetta mál varðar.

Í greinargerð framangreinds frumvarps, sem átti að jafna stöðu innlendra og erlendra aðila, er bent á að í lögum sé ekki fjallað um viðskipti almennings með áfengi við erlendar verslanir, t.d. í gegnum vefverslanir.

Spurður hvort líta megi svo á að engin réttaróvissa ríki um erlendar netverslanir á borð við Sante og Nýju vínbúðina þar sem þær hafi fengið að starfa óáreittar af ákæruvaldinu ásamt því að nú er ljóst að löggjafinn telji ekki aðkallandi að skýra lagarammann um þær, svaraði Jón:

„Er allri réttaróvissu eytt í þessu máli? Ég lít nú þannig á að það sé ákveðin réttaróvissa í þessu máli enn sem komið er. Sérstaklega af því að þetta frumvarp fór ekki í gegn.“

Hann ætli því að setja í gang vinnu í ráðuneytinu í sumar til að greina málið betur í sambandi við Evrópulöggjöf. „Við þurfum að kafa ofan í þetta og leggja svo fram frumvarp sem tekur á þessum málum.“

Spurður um hvað hafi staðið í vegi fyrir að frumvarpið um vefverslanir fengi afgreiðslu segir hann að eins og með mörg önnur þingmannamál hafi þau ekki alveg eins mikið vægi. Þá liggi ekki fyrir sami stuðningurinn hjá hinum ríkisstjórnarflokkunum, Vinstri grænum og Framsókn, að opna fyrir sölu einkaaðila á þessum markaði. „Það er nú bara þannig.“

„Ákveðin opnun“

Jón segir þó að frumvarpið sitt um sölu minni brugghúsa á framleiðslustað muni fá afgreiðslu í þinginu fyrir þinglok. Auk þess virðist samkomulag um að víkka það út svo að þær breytingar nái ekki bara til bjórframleiðenda heldur einnig til minni áfengisframleiðenda sem brugga sterkara áfengi.

Dómsmálaráðherra segir að áfengislöggjöfin á Íslandi sé hvað ströngust á Norðurlöndunum. Frumvarpið hans marki fyrstu breytinguna á áfengislöggjöfinni hér á landi í áratugi. Hann hafi á sinni 15 ára þingsetu verið meðflutningsmaður slíkra áfengismála á nánast hverju þingi.

„Bara að þetta mál skuli fara í gegn núna, þetta bjórmál gagnvart litlu bruggframleiðendunum og sú breyting að það gildi einnig gagnvart þeim sem eru að brugga sterkara áfengi á svona smáum skala, það er ákveðin opnun.“