Ríkissjóður Íslands hefur fengið heimild til að gefa út vaxtaskiptasamninga á innlendum fjármálamarkaði fyrir allt að 20-40 milljarða króna á ári. Er þetta í fyrsta skipti sem slík heimild er veitt, en tekin hefur verið ákvörðun um að hefja undirbúning við útgáfu slíkra samninga á næstu mánuðum.

Þetta kemur fram í stefnu í lánamálum ríkisins til fimm ára, 2017 til 2021, sem birt var af hálfu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 21. október síðastliðinn. Lánamál ríkisins fer með umsýslu samninganna.

Markmið stefnunnar er að tryggja að lánsfjárþörf og fjárhagslegum skuldbindingum ríkissjóðs sé mætt með lágmarkskostnaði að teknu tilliti til varfærinnar áhættustefnu. Þar koma fram áform stjórnvalda um framkvæmd lánsfjármögnunar á tímabilinu, markmið við lánastýringu, viðmið við stýringu lánamála, samsetning lánasafns ríkissjóðs, helstu áhættuþættir við lánastýringu og áhættuskuldbindingum ríkissjóðs.

Stefnan til næstu fimm ára byggir að miklu leyti á fyrri stefnu, en felur þó í sér áherslubreytingar til samræmis við fjármálaáætlun auk nýjunga á borð við heimilda til útgáfu vaxtaskiptasamninga.

Markmiðið að stýra áhættu

Ríki búa yfirleitt við hagstæðari kjör á útgáfu skuldabréfa í heimamynt viðkomandi ríkis heldur en aðrir útgefendur, svo sem fjármálastofnanir og fyrirtæki. Ástæðan er sú að skattlagningarvald ríkisins tryggir hlutfallslega yfirburði með tilliti til lánshæfis umfram aðra útgefendur.

Ríki nýta þessa yfirburði til að gefa út óverðtryggð skuldabréf til langs tíma, en í því felst mikil vaxtaáhætta. Vaxtaáhætta er tegund markaðsáhættu sem hefur áhrif á markaðsvirði lánasafns, líkt og sveiflur í gengi og verðbólgu. Hún vísar til þeirrar áhættu að fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs hækki vegna breytinga á vaxtakjörum, og er hún háð samsetningu lánasafns með tilliti til breytilegra og fastra vaxta á lánum.

Áhætta breytilegra vaxta er að markaðsvextir hækki og þar með vaxtakostnaður ríkissjóðs. Áhætta fastra vaxta á langtímalánum er að ríkissjóðir verði af vaxtasparnaði ef vextir lækka. Í árslok 2015 voru 72% af vöxtum lánasafns ríkissjóðs fastir og 28% breytilegir.

Skilvirk áhættustýring leitast við að draga úr áhættu ásamt því að lágmarka vaxtakostnað til lengri tíma. Ein leið til að stýra vaxtaáhættu er gerð vaxtaskiptasamninga.

Vaxtaskiptasamningur er afleiða þar sem aðilar skiptast á vaxtagreiðslum (föstum vöxtum og breytilegum) af tilteknum höfuðstól í ákveðinn tíma í sama gjaldmiðli í svokölluðu plain vanilla swap .

Hugmyndin á bak við heimild ríkissjóðs til útgáfu vaxtaskiptasamninga er því að stýra vaxtaáhættu lánasafnsins. Ríkissjóður mun þá gera skiptasamning við aðila sem á t.d. 10-ára skuldabréf á ríkissjóð á breytilegum vöxtum (t.d. banka), með þeim hætti að hann borgar ríkissjóði fasta vexti og ríkissjóður borgar honum fljótandi vexti á móti. Ríkissjóður getur þá bæði nýtt sér skammtímavexti á markaði, viðhaldið útgáfu á löngum skuldabréfum og stýrt meðallíftíma og vaxtaáhættu lánasafnsins með því að gefa út löng skuldabréf og gera vaxtaskiptasamning.

Aukin þörf fyrir útgáfu vaxtaskiptasamninga liggur að baki heimildinni, en á næstu árum er stefnt að uppgreiðslu á víxlaútgáfu Seðlabanka Íslands upp á 13-14 milljarða króna og óverðtryggða ríkisbréfaflokknum RIKH 18 1009, sem er á breytilegum vöxtum. Með uppgreiðslu lánanna mun samsetning vaxtaáhættunnar í lánasafni ríkissjóðs breytast með þeim hætti, að hlutfall breytilegra vaxta lækkar úr 28% í 3% og meðallíftími lánasafnsins lengist mikið. Þessi breyting myndi ganga til baka með vaxtaskiptasamningum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .