Útgefendur Reykjavík Grapevine hafa búið til nýtt app sem þeir vona að muni koma svöngum borgarbúum og ferðamönnum að gagni. Appið nefnist Craving og veitir hungruðum frelsi frá því að þurfa að hugsa tímunum saman um hvað þeir ættu að fá sér í svanginn og hvaða veitingastað þeir ættu að sækja hverju sinni.

Appið virkar svona:

*Notandinn halar því niður í iPhone símtækið sitt, eða iPad, (Android útgáfa er væntanleg hvað úr hverju).
*Hann/hún opnar appið
*Hann/hún hristir símann sinn duglega
*Appið stingur upp á veitingastað, ásamt því að veita upplýsingar um staðsetningu, símanúmer, það sem í boði er og stutta umsögn byggða á umfjöllunum Reykjavík Grapevine gegnum tíðina (en tímaritið hefur líkt og flestir vita fjallað af nokkrum ákafa um veitingastaði á Íslandi og veitt þeim einkunnir og dóma síðastliðin ellefu ár).
*Ef notandinn er ekki í skapi fyrir staðinn sem stungið var upp á er einfalt að hrista aftur og fá nýja hugmynd
*Eins er hægt að þrengja rammann og tilgreina hvernig matargerð manni líkar helst, hvaða stjörnugjöf maður þráir og þar fram eftir götunum.

„Grapevine er auðvitað með höfuðstöðvar í hjarta miðbæjarins,“ segir Hilmar Steinn Grétarsson, útgefandi Reykjavík Grapevine. „Eins og flestir sem lifa eða starfa á svæðinu vita getur stundum verið erfitt að ákveða sig þegar kemur að því að ákveða hvar hádegismaturinn skuli snæddur - ég er vissulega í þeim hópi. Því hefur mér þótt frábært að geta reitt mig á Craving síðustu vikur, ef eitthvað skortir upp á andagiftina. Má þó nefna að vitaskuld sýnir appið einnig staði utan miðbæjarins."

Hægt er að nálgast appið í App store með að slá inn „Craving,“ „Grapevine“ og fleiri leitarorð, en einnig má sækja það með því að smella hér .