Icelandair flutti rúmlega 93 þúsund farþega í janúar sl., sem er 13% fjölgun á milli ára í janúarmánuði. Framboð félagsins í mánuðinum jókst um 7% á milli ára.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group en heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í fyrra nam tæplega 1,75 milljón farþega, samanborið við tæplega 1,5 milljón farþega árið 2010 og tæplega 1,3 milljón farþega árið 2009. Farþegafjöldi félagsins jókst þannig um 18% á milli ára  fyrra.

Sætanýting Icelandair í janúar var 69% og jókst um 3,5% á milli ára. Það er besta sætanýting í janúarmánuði í sögu félagsins. Sætanýtingin á síðasta ári var um 79% og jókst um 1% á milli ára. Það var jafnframt besta sætanýtingin í sögu félagsins.

Aukning í fraktflugi

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, stóð í stað milli ára í janúar en félagið flutti um 23.700 farþega í mánuðinum. Framboð félagsins dróst saman um 1% á milli ára í janúar. Sætanýtingin nam um 65% og dróst saman um hálft prósent.

Flugfélag Íslands flutti um 353 þúsund farþega á síðasta ári sem þýðir 3% fjölgun farþega á milli ára. Fyrir utan það að farþegum fjölgaði í innanlandsflugi lagði félagið einnig aukna áherslu á flug til Grænlands á árinu. Sætanýting félagsins jókst um 1% á milli ára í fyrra.

Nýting flugflota í eigu Icelandair Group dróst saman um rúm 11% á milli ára í janúar. Hér er átt við vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic, sem nýttar eru til leiguverkefna á vegum samstæðunnar. Nýting flugflotans dróst saman um 1% á milli ára á síðasta ári, líkt og árið áður.

Fraktflug á vegum Icelandair Cargo jókst um 11% á milli ára í janúar. Aukningin í fraktflugi jókst um 7% á milli ára í fyrra, samanborið við 4% aukningu árið 2010.

Þá jókst nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar um 1% á milli ára í janúar. Nýting hótelherbergja samstæðunnar á síðasta ári jókst um tæp 2% á milli ára. Framboð hótelherbergja á vegum samstæðunnar jókst um 12% á milli ára í janúar.

Birkir Hólm
Birkir Hólm
© BIG (VB MYND/BIG)

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, getur vel við unað miðað við farþegafjölda félagsins í janúar.