Alþingi kaus í dag sjö aðalmenn og sjö varamenn í bankaráð Seðlabanka Íslands. Aðalmenn voru kjörnir: Lára V. Julíusdóttir, Ragnar Arnalds, Ágúst Einarsson.  Hildur Traustadóttir, Ragnar Árnason, Magnús Árni Skúlason og Katrín Olga Jóhannesdóttir

Varamenn  voru kjörnir: Margrét Kristmannsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Herbert Guðbjörtsson, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Birgir Þór Runólfsson, Ingibjörg Ingadóttir og Friðrik Már Baldursson.

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sagði áður en gengið var frá kjörinu að Borgarahreyfingin mótmælti því að kosið væri í stjórn Seðlabankans með pólitískum hætti og af pólitískum meirihluta þingsins. „Það er lágmarkskrafa að stjórn Seðlabankans sem og annarra ríkisstofnana sé skipuð af faglegum forsendum en ekki pólitískum."

Hann sagði að stjórn Seðlabankans, fyrir utan Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, hefði brugðist algjörlega hlutverki sínu í aðdraganda og eftirmála hrunsins á síðasta ári. „Stjórn Seðlabankans á ekki að vera kaffisamsæti flokksgæðinga sem eru ábyrgðarlausir í störfum sínum heldur vera skipuð hæfu fólki ráðnu af faglegum forsendum."

Óskaði Borgarahreyfingin eftir því að kosningu í bankaráðið yrði frestað og að staðið yrði að kjörinu með öðrum hætti í framtíðinni. Ekki var orðið við þeirri ósk heldur sjálfkjörið í bankaráðið.