Dagsbrún hefur unnið að undirbúningi að útgáfu nýs dagblaðs í Danmörku að fyrirmynd Fréttablaðsins, Nyhedsavisen, sem dreift verður án endurgjalds til um 500 til 700 þúsund heimila í Danmörku. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

?Rekstur Dagsbrúnar á fyrsta ársfjórðungi hefur einkennst af miklum innri og ytri vexti. Á sama tíma er félagið að standast áætlanir sínar, ef undan eru skyldar gengisbreytingar vegna erlendra lána. Áhrif gengisbreytinganna eru í samræmi við markaða stefnu í áhættustýringu félagsins." segir Gunnar Smári Egilsson forstjóri Dagsbrúnar.

Hann segir að félagið hafi keypt nokkur öflug félög á fyrsta ársfjórðungi en einnig lagt áherslu á að efla þær einingar sem eru fyrir í samstæðunni. ?Mikill vöxtur hefur til dæmis einkennt Og1 vildarþjónustu hjá Og Vodafone en í kringum 15 þúsund heimili hafa nú þegar skráð sig, þar af um 3,800 á fyrsta ársfjórðungi 2006. Þessi aukning gefur góð fyrirheit um tekjuvöxt á komandi mánuðum. M12 vildarklúbbur Stöðvar 2 hefur einnig vaxið stöðugt enda hafa áskrifendur stöðvarinnar aldrei verið fleiri en nú."

Erlendis hefur Dagsbrún lagt áherslu á fjárfestingartækifæri á prentmiðlamarkaði. Félagið hefur nú þegar stigið sín fyrstu skref í þá átt með því að eignast meirihluta í breska prent- og samskiptafyrirtækinu Wyndeham Press Group. Dagsbrún á nú ríflega 95% hlut í Wyndeham.

?Á fyrsta ársfjórðungi 2006 hefur Dagsbrún því stóreflt starfsemi sína hér á landi og byggt upp öflugt félag á sviði fjarskipta, upplýsingatækni, fjölmiðlunar og afþreyingar. Markmið Dagsbrúnar er að verða leiðandi á öllum þessum mörkuðum hérlendis. Á sama tíma hafa verið tekin örugg skref til útrásar og sjónunum beint að því að byggja upp öfluga starfsemi á sviði prentmiðla í Skandinavíu og Bretlandi," segir Gunnar Smári í tilkynningu sinni.