Kröfuhafar Kaupþings hafa samþykkt að eignast 87 prósent hlut í Arion banka sem hluta af uppgjöri milli þeirra og íslenska ríkisins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Líklega verður tilkynnt um þessa niðurstöðu á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni klukkan 14:00 í dag. Íslenska ríkið mun áfram eiga 13 prósent í Arion banka, sem varð til síðasta haust þegar forveri hans, Kaupþing, féll.

Vefur Viðskiptablaðsins greindi fyrstur miðla frá þessari niðurstöðu í gærmorgun.

Örfá atriði kláruð í gær

Stífar samningaviðræður hafa átt sér stað síðustu daga á milli skilanefndar Kaupþings, sem sér um þær fyrir hönd kröfuhafa, og samningarmanna íslenska ríkisins. Ákvörðunin átti að liggja fyrir á miðnætti í gær samkvæmt þeim tímaramma sem settur hafði verið.

Fastlega var búist við því að tilkynnt yrði um niðurstöðu í samningsviðræðunum í gær en því var frestað þangað til í morgun. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að samkomulagið hafi legið fyrir í meginatriðum eftir að kröfuhafarnir fengu afhent óbirt níu mánaða uppgjör Arion banka, en heimildir Viðskiptablaðsins herma að það sýni ágæta stöðu bankans. Örfá atriði stóðu út af borðinu eftir fundarhöld í London um helgina og var verið að ganga frá þeim fram eftir degi í gær.

Mestmegnis skuldabréfaeigendur

Á bilinu 70 til 80 prósent kröfuhafa Kaupþings eru skuldabréfaeigendur. Samsetning þess hóps mun ekki liggja fyrir fyrr en kröfulýsingafrestur í bú Kaupþings rennur út á gamlársdag. Líkt og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins fyrir helgi þá hefur sá leðjuslagur sem geisað hefur á opinberum vettvangi um framtíð smásölurisans Hafa og meðferð Arions banka á lánum til eigenda Haga, 1998 ehf., dregið úr vilja kröfuhafanna til að eignast meirihluta í bankanum. Hann mun þó ekki hafa ráðið úrslitum enda ljóst að kröfuhafarnir munu verða meirihlutaeigendur í Arion banka.