Nýtt fasteignafélag hefur tekið yfir flestar eignir Nýja Kaupþings. Félagið heitir Landfestar og er dótturfélagi Nýja Kaupþings banka. Það mun eiga og reka atvinnuhúsnæði sem bankinn á og kann að eignast. Höfuðstöðvar bankans eru þó undanskyldar, þær eru í eigu bankans sjálfs.

Framkvæmdastjóri félagsins er  Jónas Þór Þorvaldsson og starfsmenn eru fimm. Að sögn Jónasar eru eignir félagsins um 60 þúsund fermetrar og er fasteignamat þeirra um 10 milljarðar króna. Efnahagsreikningur félagsins liggur ekki fyrir fyrr en búið er að ganga frá efnahagsreikningi bankans.

Í tilkynningu frá bankanum segir að með því að setja þessar fasteignir í sérstakt félag er verið að auka á gagnsæi og tryggja faglega stjórnun eignanna án beinnar íhlutunar bankans. Þetta endurspeglar þær áherslur sem stjórn bankans hefur mótað.

Á hluthafafundi Landfesta í gær var félaginu kjörin ný stjórn. Hana skipa utanaðkomandi einstaklingar sem eru óháðir bankanum: Hulda Dóra Styrmisdóttir, formaður, Hafdís Karlsdóttir og Halldór Vilhjálmsson.