Heildarfasteignamat á landinu öllu hækkar um 7,7% eða um 385 milljarða íslenskra króna frá og með ársbyrjun 2015. Þar af hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis um 241 milljarð króna. Stærsti hluti hækkunarinnar er vegna eigna í fjölbýli eða um 143 milljarðar króna.

Eignir í fjölbýli hækka að meðaltali um 10,2% á landinu öllu en eignir í sérbýli um 5,2% að meðaltali. 89% allra breytinga á fasteignamati eru hækkanir á bilinu 0% til 15%. Þrátt fyrir þetta má finna talsvert meiri hækkanir á fasteignamati á íbúðum á vissum svæðum á höfuðborgarsvæðinu.

Dæmi eru um 20% hækkun á fasteignamati á vissum svæðum í þeim stikkprufum sem Viðskiptablaðið gerði.

Í takt við verðþróun

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics, sem birti nýverið skýrslu um íslenska fasteignamarkaðinn segir það ljóst að miðsvæðis hækki fasteignamat mikið en talsvert minna í jaðri höfuðborgarinnar. „Þetta virðist vera í þessari þróun eins og markaðurinn hefur verið. Miðbærinn hefur hækkað mun meira hlutfallslega en jaðarsvæðin,“ segir Magnús Árni. Hann bendir á að sum sveitarfélög geti búist við vænni tekjuaukningu. „Auðvitað vænkast hagur sveitarfélaga og sérstaklega hér miðsvæðis. Reykjavík hlýtur að verða fyrir miklum búhnykk með þessu. Hjá venjulegu heimili verður þetta að sama skapi alltaf dýrara og dýrara,“ segir Magnús Árni og bendir jafnframt á að önnur sveitarfélög hagnist einnig á hækkandi fasteignamati.

Það að fasteignamat íbúðar hækki hefur í för með sér að fasteignagjöld íbúðareigenda hækka og öfugt ef matið lækkar. Fasteignaskattur fyrir venjulegt íbúðarhúsnæði í Reykjavíkurborg nemur 0,2% af fasteignamati húss og lóðar en lóðarleiga 0,2% af fasteignamati lóðar. Sem dæmi má nefna að fyrir íbúa í Hlíðunum sem á íbúð sem metin var á 20,5 milljónir 2014 en hækkar upp í 23,9 milljónir í fasteignamatinu 2015 þá hækka greiðslurnar um tæpar 8 þúsund krónur og fara úr tæpum 48 þúsund í tæplega 56 þúsund krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .