Stofnað hefur verið félag um nýtt ökugerði við vegamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Nafn félagsins er Ökugerði ehf. og er stefnt að því að opna æfingabrautir með vorinu að því er kemur fram í frétt á vef Víkurfrétta. Forráðamenn félagsins kynntu ökugerðið nýverið fyrir fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Vegagerðinni, Umferðarstofu, Rannsóknarnefnd umferðarslysa og fleiri aðilum. Ólafur Kr. Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins en aðaleigandi þess eru Páll Harðarson og Ágústína Haraldsdóttir, eigendur Nesbyggðar.

Sagði Páll við kynninguna að í stað þess að selja jarðvinnutæki úr landi eða láta þau standa ónotuð hefði hann ákveðið að leggja út í þessar framkvæmdir að því er kemur fram á frétt Víkurfrétta.