Stofnað hefur verið nýtt félag, Tímaritaútgáfan Fróði ehf., um útgáfu á vegum Fróða hf. Þetta er liður í ráðstöfunum til að tryggja reksturinn í sessi segir í tilkynningu frá félaginu. Þar segir einnig að engar breytingar er áformaðar á útgáfustarfseminni. Í ágúst síðastliðnum var samið um kaup Torgs ehf., dótturfélags Odda hf., á öllum hlutabréfum í Fróða hf.

Kaupsamningurinn var með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar á efnahag félagsins. Fallið var frá fyrirvaranum í byrjun september og síðan gengið formlega frá kaupunum. Ný stjórn var kjörin í félaginu í kjölfar þessa og hefur hún ásamt starfsmönnum Fróða unnið undanfarið að því að hagræða í reksti svo sem verða má. Jafnframt hefur verið rætt við helstu lánardrottna félagsins um að fella niður skuldir þess að hluta. Þess er vænst að niðurstaða fáist í viðræður við lánardrottna fyrir áramót.