Magnús Scheving Thorsteinsson fyrrum forstjóri Klakka og framkvæmdastjóri hestaleigunnar Íshesta einn þeirra sem keypt hafa eina stærstu reiðhöll landsins sem staðsett er á jörðinni Ingólfshvoli í Ölfusi.

Fyrir tveimur árum sagði Vísir frá því að nýir eigendur hefðu tekið við rekstri hestagarðsins sem bar nafnið Fákasel og var rekinn á jörðinni, en þar var þá rekinn veitingastaður sem tekur 80 manns í sæti auk 160 manna veislusalar

Félagið sem tekur við rekstrinum nú er það þriðja síðan árið 2014 utan um reksturinn. Það var stofnað 15. október síðastliðinn undir nafninu Ingólfshvoll, hestamiðstöð ehf. Auk Magnúsar Scheving er nýja félagið í eigu Magnúsar Andréssonar og Ingunnar Guðmundsdóttur sem jafnframt eiga Miðsitju í Skagafirði. Magnús Andrésson er formaður stjórnar en Magnúsar Scheving og Ingunn sitja í stjórninni en Ingunn er jafnframt er framkvæmdastjóri og með prófkúruumboð fyrir félagið.

Tilgangur félagsins er sögð ýmis starfsemi tengd íslenska hestinum, svo sem ræktun, kaup, sala, þjálfun og umhirða, og einnig önnur landbúnaðarstarfsemi. Útleiga á fasteignum að Ingólfshvoli, Ölfusi, þjónusta við hestamenn, sýningarhald og tónleikahald, viðhald fasteigna, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Töpuðu hálfum milljarði á þremur árum

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma keypti fagjárfestingasjóður Landsbréfa, Icelandic Tourism fund, ásamt hópi fjárfesta, þar á meðal Guðmundi Ólasyni í Milestone, jörðina árið 2014 til að byggja þar upp veitingaþjónustu, og ýmis konar afþreyingu fyrir ferðamenn.

Meðal þess sem boðið var upp á voru daglegar hestasýningar þar sem reyndir framleiðendur, tækni- og leikhúsfólk kom að hönnun og uppsetningu sýninganna að því er sagt var frá í fréttum á sínum tíma. Tap fyrsta ársins á rekstrinum nam 136 milljónum og árið eftir nam tapið 167,7 milljónum króna, en þá átti félagið 537 milljónir í eignum en skuldaði 404 milljónir. Tap ársins 2016 nam síðan 199 milljónum króna .

Þar með nam samanlagt tap áranna 2014 til og með 2016 502,7 milljónum króna miðað við verðlag hvers árs. Fjárfestingasjóðurinn átti til að byrja með 47,8% í félaginu en eftir hlutafjáraukningu árið 2016 átti sjóðurinn þá um 90% í félaginu, en hann var í eigu Icelandair Group, Landsbankans og sjö lífeyrissjóða.