Skipti hf., móðurfélag Símans, hefur ákveðið að stofna nýtt félag, Skjá miðla, um rekstur tveggja dótturfélaga sinna, Já og Skjásins að því er kemur fram í tilkynningu.

Já starfar sem upplýsingaveita en Skjárinn hefur markað sér sérstöðu í afþreyingu en bæði fyrirtækin keppa á auglýsingamarkaði og veita einstaklingum þjónustu. Skjárinn sér um rekstur frístöðvarinnar SkjárEinn í sjónvarpi, leigu á myndböndum heima í stofu og aðgengi að alþjóðlegum sjónvarpsstöðvum undir merkjunum SkjárBíó og SkjárHeimur. Já sér um rekstur þjónustunúmeranna 118, 1818 og 1811 og annast útgáfu Símaskrárinnar, rekstur vefsvæðisins Já.is og Gulu síðnanna.

Framkvæmdastjóri Skjá miðla ehf. verður Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já, en hún heldur því starfi áfram. Björn Þórir Sigurðsson verður nýr sjónvarpsstjóri Skjásins. Starfsmönnum félaganna var tilkynnt um breytingarnar í dag og samhliða því var nýtt skipurit Skjásins kynnt.

?Já hefur markað sér skýra framtíðarsýn um að vera fyrsta val þegar fólk leitar upplýsinga í dagsins önn auk þess að auðvelda samskipti. Þessi breyting mun ekki hafa nein áhrif á rekstur Já en það verður spennandi að takast á við stefnumörkun og rekstur Skjásins í samstarfi við nýjan sjónvarpsstjóra. Þessi breyting er til þess fallin að byggja upp öflugt miðla- og þjónustufyrirtæki sem hefur að markmiði að skapa viðskiptavinum sínum, starfsmönnum og eigendum hámarksvirði,?  er haft eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Skjá miðla, í tilkynningu.