Alls flugu 57.175 íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli í september síðastliðinn og hafa þeir ekki áður verið svo margir í þeim mánuði samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Þetta kemur fram í frétt Túrista .

„Framboð á flugi frá landinu er í hæstu hæðum og fargjöldin í sumum tilvikum óvenju lág og það er ekki annað að sjá en að Íslendingar nýti sér það,“ segir í frétt Túrista.

Þá fóru fleiri íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli fyrstu níu mánuði ársins heldur en allt árið 2015. Árið 2015 fóru um 450 þúsund farþegar í gegnum vopnaleitina í Leifsstöð með íslensk vegabréf en milli janúar og september á þessu ári var fjöldinn kominn upp fyrir 462 þúsund. Nýliðinn september er sá eini sem kemst á listann yfir þá 10 mánuði sem Íslendingar hafa verið mest á ferðinni.