Breska smásölukeðjan Woolworths hefur greint frá því að afkoma félagsins það sem af er nýju fjárhagsári - sem hófst 3. febrúar síðastliðinn - lofi góðu. Þetta kemur fram í frétt Dow Jones-fréttastofunnar, en Woolworths, sem Baugur á 28% hlut í gegnum Unity-fjárfestingarfélagið, sem einnig er í eigu FL Group, sendi frá sér tilkynningu í gær og í henni varar stjórnarformaður fyrirtækisins, Gerald Corbett, engu að síður við því að samkeppnisumhverfið á smásölumarkaði muni halda áfram að reynast félaginu erfitt. Markmið Woolworths næstu misseri verði að hagræða enn frekar í rekstri; auka greiðsluflæði, minnka kostnaðarútgjöld og bæta hagnaðarhlutfall félagsins.

Heildarsala Woolworths af öllum þeim vörutegundum sem það býður upp á jókst um ellefu prósent á fyrstu sautján vikum fjárhagsársins miðað við sama tímabil árið á undan. Sérfræðingar sögðu að afkomutölur félagsins væru betri í afþreyingarstarfsemi heldur en búist hafði verið við, sem hefði vegið upp á móti verri afkomu í smásölu.

Í síðasta mánuði greindi Woolworths frá því að afþreyingardeild fyrirtækisins hefði gert bráðabirgðarsamning við Asda Group um að sjá fyrirtækinu fyrir vörum á borð við geisladiska, tölvuleiki og DVD-diska. Asda, sem er í eigu bandaríska smásölurisans Wal Mart, er næst stærsta smásölufyrirtæki Bretlands, en aðeins Tesco er stærra.

Góð afkoma af afþreyingarstarfsemi
Trevor Bish-Jones, framkvæmdastjóri Woolworths, sagði að heildsala af afþreyingarstarfsemi félagsins hefði aukist um 28% og gert væri ráð fyrir því að tekjurnar af henni myndu fara yfir 1,5 milljarða punda á núverandi fjárhagsári. Framkvæmdastjórinn sagði jafnframt að afþreyingardeild Woolworths hefði vaxið verulega á undanförnum átján mánuðum; úr því að vera nánast engin í það að verða fjórði eða fimmti stærsti dreifingaraðili Bretlands.

Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki um hugsanlegt yfirtökutilboð í Woolworths undanfarin misseri og í þeim efnum hefur einkum verið rætt um að Baugur muni yfirtaka félagið, en hlutur þess er í kringum tíu prósent. Í síðasta mánuði gagnrýndi Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnendur Woolworths og sagði þá þurfa að taka betur á vandamálum félagins; ef ekki yrðu gerðar verulegar breytingar á rekstrinum væri sennilegt að vandræðin yrðu enn meiri. Í marsmánuði tilkynnti Woolworths að hagnaður þess fyrir skatta og óregluleg gjöld hefði lækkað um 62% á síðasta fjárhagsári og numið 21,8 milljörðum punda. Sú afkoma var félaginu mikil vonbrigði og skýrðist hagnaðurinn auk þess að stórum hluta til - um 9 milljarðir punda - vegna breyttrar uppgjörsaðferðar Woolworths, en fjárhagsár fyrirtækisins taldi 53 vikur og lauk 2. febrúar síðastliðinn.

Hlutabréf Woolworths hækkuðu fyrst í gærmorgun um 1,8% í kjölfar frétta af afkomu félagsins en þegar líða tók á daginn tók gengið að lækka. Stuttu áður en hlutabréfamarkaðir lokuðu í London í gær hafði gengi bréfanna lækkað um tæplega 0,6%. Hlutabréf Woolworths hafa samtals lækkað um tólf prósent á einu ári, en afkoma fyrirtækisins hefur verið verri heldur en hjá flestum samkeppnisaðilum í þeim vörutegundum sem Woolworths selur.