Icelandic Lava Show, sem heldur úti lifandi hraunsýningu í Vík í Mýrdal, hefur undirritað samkomulag við EB Invest sem kemur inn í eigendahóp félagsins með fjármagn til að standa straum af opnun á nýrri sýningu á vegum félagsins. Birgir Örn Birgisson, fyrrum forstjóri Domino's á Íslandi, fer fyrir EB Invest.

„Ég fór á sýningu Icelandic Lava Show síðastliðið vor og var uppnuminn að henni lokinni. Í marga daga á eftir leitaði hugurinn aftur til hennar og ég sá ótal tækifæri í stöðunni,“ segir Birgir í fréttatilkynningu. „Þegar viðræður hófust við stofnendur og eigendur Icelandic Lava Show var ljóst að við deildum sömu framtíðarsýn og hópurinn er afar samstilltur. Við ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni bæði hér heima og erlendis,“ bætir hann við.

Það eru þrjú ár síðan Icelandic Lava Show opnaði. Í tilkynningunni segir að reksturinn hafi vaxið hratt í fyrstu en kórónuveirufaraldurinn reyndist hins vegar áskorun fyrir félagið. Vel gangi þó að vinna úr aðstæðum og þá segir að staða félagsins aldrei verið sterkari.

Lava Show opnar á Granda fyrir næsta sumar

Fyrsti áfanginn í framtíðaráformum félagsins er opnun sýningar í Reykjavík en hún kemur til viðbótar við sýninguna sem fyrir er í Vík í Mýrdal. Félagið hefur þegar tryggt sér húsnæði á Granda og vinna er komin af stað svo hægt verði að opna fyrir næsta sumar.

Júlíus Ingi Jónsson og Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnendur Icelandic Lava Show, eru afar spennt fyrir framhaldinu. Þau segja að sýningarnar í Vík og Reykjavík muni styðja vel við bakið á hvor annarri. Í Vík sé áherslan að miklu leyti á Kötlu, eina hættulegustu eldstöð heims, og hvernig það sé fyrir íbúa svæðisins að búa við þá stöðugu ógn.

„Í Reykjavík verður megináherslan auðvitað líka á rauðglóandi hraunið en þar munum við nálgast viðfangsefnið meira út frá Íslandi í heild sinni og hvaða hættur leynast hérna á höfuðborgarsvæðinu. Handritsvinnan er langt komin og við getum lofað magnaðri upplifun“, segir Ragnhildur.

Starfsemi Icelandic Lava Show felst í að endurskapa aðstæður eldgoss með því að bræða alvöru hraun upp í 1.100°C og hella því inn í sýningarsal fullan af fólki. Aðstandendur sýningarinnar segja að hvergi annars staðar í heiminum sé hægt að komast í návígi við rauðglóandi hraun með öruggum hætti.

Icelandic Lava Show
Icelandic Lava Show
© Aðsend mynd (AÐSEND)