Nýtt flugfélag, Eyjaflug, ætlar að bjóða upp á ferðir á milli Vestmannaeyja og Bakkaflugvallar. Félagið hefur keypt þrjár flugvélar sem áður voru í eigu flugfélags Vestmannaeyja og ætlar að hefja rekstur á Þjóðhátíð í Eyjum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Bækistöð félagsins verður í Vestmannaeyjum þar sem félagið hefur keypt flugskýli. Bergur Axelsson, flugmaður hjá Atlanta er forstjóri félagsins. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að upistaðan verði túristaflug á sumrin en einnig verði flogið milli Eyja og Bakkafjöru þegar Herjólfur þarf að sigla lengri leiðina. Einnig verði stundað leiguflug innanlands til að auka nýtingu á vélum félagsins.

Stærsta vél félagsins er tíu sæta en hinar tvær eru sex sæta vélar.