Um helgina var gengið frá samningi um kaup Fons eignarhaldsfélags (sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar) á norræna lágfargjaldaflugfélaginu Sterling fyrir um 5 milljarða íslenskra króna, eða 400 milljónir danskar.

Félagið er staðsett í Kaupmannahöfn og starfa þar um 600 manns. Á árinu 2004 flutti Sterling um 1,8 milljónir farþega og áætlanir fyrir yfirstandandi ár gera ráð fyrir að fjöldi farþega verði nálægt 2 milljónum. Flugfloti félagsins samanstendur af 10 Boeing 737-800 vélum og flýgur félagið til tæplega 30 áfangastaða í Evrópu.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að undanfarin ár hefur verið óslitið tap af rekstri Sterling. Velta félagsins hefur þó nærri tvöfaldast frá árinu 2000, var um 1,6 milljarðar danskra króna árið 2004, og jókst um rúmlega 400 milljónir á milli ára. Þá var tap af rekstri félagsins á síðasta ári 119 milljónir danskra króna. Taprekstur nýliðins árs skýra stjórnendur félagsins með háu eldsneytisverði, harðri samkeppni og gengisvörnum gagnvart breytingu dollars.

Hinir nýju eigendur félagsins sjá strax möguleika á ákveðnum samlegðaráhrifum hjá Sterling og Iceland Express (sem er í eigu sömu aðila) en telja að ótímabært sé að ræða um sameiningu félaganna að svo stöddu, slíkir möguleikar verði skoðaðir síðar segir í Hálffimm fréttum.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.