Gylfa Zoëga prófessor í hagfræði í HÍ og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans segir ljóst að Íslands sé mjög dýrt fyrir útflutningsgreinar, sérstaklega láglaunagrein eins og ferðaþjónustu í Morgunblaðinu í dag. Hátt verðlag hér á landi ógni flugfélögum sem starfi í samkeppni við flugfélög í löndum þar sem laun séu mun lægri, til að mynda Ungverjalandi, Póllandi og jafnvel Bretlandi.

Ætli Íslendingar sér að reyna við lággjaldaflugfélagarekstur á ný eftir gjaldþrot Wow air þurfi það félag að vera staðsett erlendis. „Þeir þyrftu þá að gera það með höfuðstöðvar annars staðar, þar sem íslensk vinnulöggjöf og íslenskir kjarasamningar eiga ekki við. Flest fyrirtæki á Íslandi sem ná einhverri drift koma sér út úr okkar hagkerfi; má þar nefna fyrirtæki eins og Marel og Össur, auk stórra fyrirtækja í sjávarútvegi sem eru að miklu leyti fyrir utan krónuhagkerfið,“ segir Gylfi.

Verkföll fásinna

Þá sé ljóst að verkföll í ferðaþjónustu hafi ekki hjálpað Wow í sínum lífróðri. „Það var auðvitað fásinna að fara í verkföll sem sérstaklega beindust að þessari viðkvæmu grein sem greiðir svona há laun miðað við það sem sömu stéttir fá annars staðar. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að greiða miklu hærri laun fyrir sömu þjónustu í einu landi, " segir Gylfi. Engu síður sé sennilegt að Wow hefði ekki lifað af jafnvel þó ekki hefði komið til verkfalla.

Marxísk hugsun

„Það er þungbært að á sama tíma og þessi unga atvinnugrein er að berjast áfram sé verið að meiða hana með verkföllum. Því miður er þetta dæmi um marxíska hugsun sem hluti forystumanna verkalýðshreyfingarinnar aðhyllist,“ segir Gylfi. Að líta á hagkerfið sem átök fjármagnseigenda og launþega hélt Gylfi að væri liðin tíð.

„Maður hélt að þetta stéttastríð hefði verið útkljáð fyrir að minnsta kosti sextíu árum. Ég hélt að allir væru farnir að skilja það að lífskjörin byggjast á því að fyrirtæki búi til verðmæti, veiti atvinnu og borgi laun. Það væri því nær fyrir verkalýðshreyfinguna að vinna með öðrum og styðja við ferðaþjónustuna til að skapa meiri vinnu og betri lífskjör.“