Smyril Line hefur bætt við nýju flutningaskipi í flota sinn í þeim tilgangi að þróa nýja siglingaleið milli Noregs og Rotterdam og tengja hana við aðrar flutningsleiðir Smyril Line, þar með talið Þorlákshöfn.

Sveitarfélagið Ölfus hefur uppi áform um stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn þannig að hægt verði að taka á móti allt að 180 metra löngum og 30 metra breiðum skipum og stuðla jafnframt að því að farþegasiglingar geti hafist milli Þorlákshafnar og Evrópu.

Nýja skipið heitir Mistral er 153 metra langt og 21 metra breitt. Djúprista þess er 7 metrar og er Mistral því heldur stærra en skipið Akranes. Mistral mun leysa Akranes af í siglingum milli Hirtshals og Þorlákshafnar og Akranes fer í nýju siglingaleiðina.

Áætlað er að vikulegar siglingar milli vesturstrandar Noregs og Rotterdam hefjist 17. ágúst næstkomandi.

Þorlákshöfn ein af lykilhöfnunum

„Það sem skiptir ekki síst máli er að leiðarkerfi Smyril Line frá Þorlákshöfn inn á markaði erlendis er að styrkjast. Þetta er í fullkomnu samræmi við þær áherslur sem við höfum höfum haft varðandi Þorlákshöfn. Stefna okkar er að Þorlákshöfn verði áfram ein af lykilhöfnum Íslands þegar kemur að siglingum á Evrópumarkað. Við erum gríðarlega ánægð með samstarfið við Smyril Line og áherslur þeirra og okkar fara vel saman,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Hann segir að nú verði róið öllum árum að því að gerðar verði þær breytingar á höfninni að hægt verði að taka á móti allt að 180 metra löngum og 30 metra breiðum skipum.

Hafnarframkvæmdir upp á 4-5 milljarða

„Þá um leið og þeirri framkvæmd verður lokið eru uppi hugmyndir að hefja siglingar farþegaskipa frá Þorlákshöfn til Evrópu. Það yrði þá í fyrsta sinn í mjög langan tíma sem yrðu beinar farþegasiglingar frá suðvesturhorninu til Evrópu. Þetta myndi breyta heilmiklu í rekstri hafnarinnar og í allri ferðaþjónustu hérna á svæðinu.“

Hafnarframkvæmdirnar felast í því að lengja þarf suðurvarnargarðinn um 150-200 metra ásamt breytingum á landi og öðrum hafnargörðum.

Elliði segir að heildarkostnaður við framkvæmdirnar séu metnar á fjóra til fimm milljarða króna. Hann segir að mjög vel líti út um aðkomu ríkisins sem myndi greiða 60% kostnaðarins en sveitarfélagið 40%. Elliði segir sveitarfélagið hafa notið skilnings samgöngu- og fjármálaráðherra sem og þingmanna kjördæmisins. Elliði segir sveitarfélagið Ölfus hafa lokið sínum undirbúningi að þessum framkvæmdum og geti fjármagnað sinn hluta af framkvæmdakostnaði hratt og örugglega. Þetta er mannaflsfrek framkvæmd sem kæmi á góðum tíma í efnahagslegri viðspyrnu í skugga heimsfaraldursins og styrki grunnatvinnugreinar landsins, það er að segja sjávarútveg og ferðaþjónustu.

„Við bindum vonir við það að við getum hafist handa núna í haust og að verkinu verði lokið á næsta ári. Sóknarfæri þessu tengd eru ómæld. Það hefur sýnt sig nú þegar að markaðurinn velur í síauknum mæli að flytja út í gegnum Þorlákshöfn frekar en Sundahöfn. Enda styttir það siglingaleiðina til Evrópu um sólarhring. Þar sparast tími og fjármunir en síðast en ekki síst dregur það úr kolefnislosun. Seinustu ár hefur aukningin í útflutningi frá Þorlákshöfn enda verið í veldisvísi. Nú siglir Akranesið til Evrópu á mánudögum og Mistral tekur við þeim siglingum. Mykinesið siglir síðan á föstudögum. Okkar vonir standa til þess að með breytingum á höfninni bætist svo þriðja skipið við þannig að hægt verði að flytja vörur út frá Þorlákshöfn til Evrópu þrisvar í viku.“