Samkeppni frá útgáfufyrirtæki Jyllands-Posten og Politiken mun ekki hafa nein áhrif á útgáfu Dagsbrúnar á fríblaði í Danmörku, sagði Svenn Dam, forstjóri 365 Media Scandinavia, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Útgáfufélagið, sem einnig gefur út Extra-Bladet, greindi frá því í dag að það hefur ákveðið að gefa út nýtt fríblað í haust og að því verði dreift í hús líkt og Nyhedsavisen, systurblaði Fréttablaðsins í Danmörku.

?Það má segja að þetta sé dæmigert danskt svar við samkeppni," sagði Dam. Hann bætti við að fyrirtækið myndi áfram vinna að markmiðum sínum og að ekki væri ljóst hvernig nýja blaðið ætti eftir að líta út.

?Við vitum ekki hvað það verða margir blaðamenn, hvernig blaðinu verður dreift og hver efnistökin verða," sagði Dam. ?Við höldum ótrauðir áfram þrátt fyrir þetta."