Þótt lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í bréfum á First North markaði er ekki víst að þeir muni gera það. Það fer þá aðallega eftir framboði fyrirtækja á þeim markaði. Þetta segir Andri Guðmundsson, forstjóri H.F. Verðbréfa. First North er eini markaðurinn hér á landi sem er skilgreindur sem markaðstorg fjármálagerninga.

Í haust stendur til að leggja fyrir þingið frumvarp þar sem eignir á markaðstorgi verði skráðar eignir en ekki óskráðar eins og verið hefur hingað til. Lífeyrissjóðir hafa með undanþágu mátt fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegan markað.

„Eins og staðan er í dag þá hafa lífeyrissjóðir varla kost á að fjárfesta á þessum markaði. Margir hverjir eru komnir upp í topp í þessari undanþágu í óskráðum bréfum. Þar sem lífeyrissjóðirnir eru hvað stærstir á markaðnum með langmesta peninga í íslenska efnahagslífinu þá þarf að breyta einhverju til að fá þessa peninga inn,“ segir Andri. Hann segir þetta jafnframt vera heimild en ekki skyldu. Þar með ættu lífeyrissjóðir að geta markað sína eigin stefnu hvort þeir nýti sér þetta eða ekki.

„Það er hins vegar ekki sjálfgefið að það hrúgist inn fyrirtæki út af þessu. Það eru minni kröfur til fyrirtækja sem skráð eru á markaðstorg, það er ekki spurning. Þetta gæti hentað fyrirtækjum sem væru á leið síðar á aðalmarkað. Það er allavega ljóst að stór hluti skráðra félaga á aðalmarkaði eru ekki fyrirtæki sem voru að sækja sér pening. Þetta eru ekki vaxtafyrirtæki heldur eigendur að selja bréf með skráningu. Þarna gæti orðið breyting á með þessari breytingu. Mörg fyrirtæki vantar pening, lítil fyrirtæki og sprotafyrirtæki sem hafa slæmt aðgengi að peningum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .