Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði í gær fram frumvarp til laga um fjármálastöðugleikaráð.  Markmið laganna er að efla og varðveita fjármálastöðugleika í almannaþágu, auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins og sporna við uppsöfnun kerfisáhættu. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið munu eiga aðild að þessu fjármálastöðugleikaráði.

Frumvarpið byggir á vinnu nefndar sem skipuð var í nóvember 2012 og skilaði þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra tillögum sínum í apríl 2013.

Í nefndinni áttu sæti Tryggvi Pálsson hagfræðingur, formaður, Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta hjá Seðlabanka Íslands, Guðrún Finnborg Þórðardóttir, staðgengill yfirlögfræðings Fjármálaeftirlitsins, Kjartan Gunnarsson, þá skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, og Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti.