Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun frumvarp til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Markmið laganna er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, bæta samkeppnishæfni Íslands og styrkja byggðaþróun. Um rammalöggjöf er að ræða þar sem að tilgreint er hvaða ívilnanir stjórnvöldum og sveitarfélögum er heimilt að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram á vorþingi.

Í grunninn byggir frumvarpið á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum, sem féllu úr gildi í lok árs 2013. Þau lög veittu íslenskum stjórnvöldum heimild til að veita ýmsar ívilnanir til nýfjárfestingarverkefna á grundvelli fjárfestingarsamninga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Í minnisblaði frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að í flestum þeim ríkjum sem Ísland á í samkeppni við um nýfjárfestingar sé boðið upp á ívilnanir og styrki af einhverju tagi. Nái frumvarp þetta fram að ganga muni það efla samkeppnishæfni Íslands hvað erlenda fjárfestingu varðar og gera Íslandi betur kleift að nýta þá sérstöðu sem landið hefur í alþjóðlegu tilliti. Skilyrði þess að fjárfestingaverkefni fái ívilnun sé m.a. að það hafi jákvæð áhrif á hvoru tveggja efnahag og samfélag.

„Fyrir gildistöku laga nr. 99/2010 tíðkaðist að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstaka verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Það fyrirkomulag reyndist þungt og tímafrekt í vöfum og ógagnsætt, og reynslan hefur sýnt að heppilegra er að hafa í gildi rammalöggjöf þar sem mælt er fyrir með gegnsæjum hætti hvaða ívilnanir stjórnvöld geta boðið vegna nýfjárfestingarverkefna hér á landi.

Helsti munur því frumvarpi sem nú er kynnt og lögum nr. 99/2010 er að felldar eru niður ívilnanir í formi undanþágu frá stimpilgjöldum, iðnaðarmálagjaldi og raföryggisgjaldi. Á móti kemur að í frumvarpinu er lagt til að tekjuskattshlutfall viðkomandi félags verði 15% á gildistíma samningsins. Á sama hátt og í lögum nr. 99/2010 er lagt til að unnt verði að veita 50% afslátt af almennu tryggingargjaldi og 50% afslátt af skatthlutfalli fasteignaskatts viðkomandi félags. Í frumvarpinu er með ítarlegum hætti tilgreint hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að eiga rétt á ívilnunum á grundvelli laganna. Með sama hætti og í lögum nr. 99/2010 er lagt til að unnt verði að veita framangreind frávik frá sköttum og gjöldum í 10 ár frá því að skattskylda myndast, þó aldrei lengur en í 13 ár frá undirritun fjárfestingarsamnings. Ákvæði um meðferð umsókna og störf ívilnunarnefndar, arðsemisútreikninga og eftirlit, hafa jafnframt verið endurskoðuð og bætt frá því sem var í lögum nr. 99/2010,“ segir í minnisblaði ráðuneytisins.