Ríkisstjórnin samþykkti í gær nýtt frumvarp um orkulög sem Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hefur unnið. Samkvæmt því mega opinber orkufyrirtæki ekki framselja auðlindir sínar varanlega. Þetta á þó ekki við um Hitaveitu Suðurnesja, þar sem hún er að hluta í einkaeigu. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV í dag.

Frumvarpið er þríþætt. Í fyrsta lagi mega orkufyrirtæki í opinberri eigu ekki framselja orkuauðlindir með varanlegum hætti. Í öðru lagi á að aðskilja framleiðslu og sölu orkunnar frá dreifingunni til almennings og í þriðja lagi verður tveir þriðju af fyrirtækjum sem dreifa orkunni að vera í opinberri eigu.

Haft er eftir Össuri Skarphéðinssyni að framsalið á orkuauðlindunum sé ekki algilt, því það nær ekki yfir orkufyrirtæki sem einkaaðilar eiga hlut í. Þetta á við um Hitaveitu Suðurnesja, sem Geysir Green Energy á tæplega þriðjungs hlut í. Stjórnskipunarfræðingar hafi komist að þeirri niðurstöðu að það stæðist ekki jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Frumvarpið bíður nú afgreiðslu þingflokka stjórnarflokkanna að því er RÚV greinir frá.