Bandarískir þingmenn íhuga nú að breyta reglum um starfssemi fjárfestingalánasjóðanna Fannie Mae og Freddie Mac en hugmyndin er að setja aukið fjármagn í sjóðina og nota þá til að fjármagna aukalán til húsnæðiseigenda.

Wall Street Journal (WSJ) greinir frá þessu í dag en með þessu hyggjast þingmenn koma í veg fyrir að húsnæðiseigendur missi húsin sín vegna vanskila en að sögn viðmælenda blaðsins má fyrst og fremst rekja lausafjárvandann í heiminum til vanskila á húsnæðislánum vestanhafs.

Samkvæmt frumvarpi sem nú er unnið að munu sjóðirnir fjármagna minni lánafyrirtæki sem lána myndu bæði einstaklingum og minni fyrirtækjum. Unnið er að tillögunni innan veggja húsnæðislánastofnunar Bandaríkjanna (e. Federal Housing Finance Agency) en að sögn heimildarmanns WSJ mun aukin starfssemi sjóðanna hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að komast yfir erfiðasta hjallann sem þá myndi auka framleiðni vestanhafs.

Þá hefur blaðið eftir John Courson, forvarsmanni samtaka húsnæðislánveitenda (e. Mortgage Bankers Association) að frumvarpið verði tilbúið innan fárra vikna.

Fannie Mae og Freddie Mac voru þjóðnýttir í september síðastliðinn en sjóðirnir voru svo að segja orðnir gjaldþrota. Sjóðirnir hafa verið notaðir til að útvega bönkum og lánastofnunum fjármagn til fasteignalána. Sjóðirnir voru, og eru, skráðir á markað enn eins og gefur að skilja eru sáralítil viðskipti með bréf í félögunum.

Margir vilja kenna óopinberri ríkisábyrgð á sjóðunum tveimur um þann lausafjárvanda sem nú ríkir í heiminum. Á tímum Clinton stjórnarinnar var lánafyrirtækjum bannað að mismuna fólki þegar kom að veitingu fasteignalána og voru sjóðirnir notaðir til að fjármagna slík lán. Með auknum vanskilum haustið 2007 fór að verða vart við minnkandi hagnað fjármálafyrirtækja og töpuðu sjóðirnir tugum milljarða dala vegna þessa.

Um þetta eru þó skiptar skoðanir en hvað sem því líður eru sjóðirnir nú í eigu hins opinbera og hafa bandarískir þingmenn úr báðum flokkum ítrekað lýst því yfir að sjóðirnir verði notaði með einum eða öðrum hætti til að til að koma hreyfingu á lánamarkaði á ný.