Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt leiðbeinandi verklagsreglur til fjarskiptafyrirtækja um skráningu og miðlun upplýsinga í símaskrá. Í tilkynningu á vef stofnunarinnar kemur fram að reglurnar séu settar til að samræma tæknilega framkvæmd á miðlun og skráningu upplýsinga fyrir þau fyrirtæki sem úthluta símanúmerum. Markmiðið með reglunum er að tryggja skilvirkni og jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja og voru reglurnar unnar í samráði við hagsmunaaðila.

Skylda til að gefa út rafræna og prentaða símaskrá, og aðra upplýsingaþjónustu um símanúmer, hefur lengst af hvílt á Símanum hf. og síðar Já upplýsingaveitum hf. Reynslan hefur sýnt að forsendur séu til þess að bjóða þjónustuna fram á markaðsforsendum.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að númerið 118 hafi verið afturkallað með hæfilegum aðlögunartíma. Er það gert til þess að jafna samkeppnisstöðu milli Já upplýsingaveitna hf. og annarra aðila sem hyggjast starfrækja upplýsingaþjónustu um símanúmer. Skal notkun 118 hætt eigi síðar en 30. júní 2015 og símaskrárupplýsingar verða framvegis veittar í númeraröðinni 1800-1899.