Landsvirkjun hefur unnið að gerð nýrra samninga með sölufyrirtækjum rafmagns sem selja raforku áfram til heimila og fyrirtækja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Um er að ræða nýtt fyrirkomulag samninga sem taka gildi um næstu áramót. Þetta nýja fyrirkomulag felur í sér mikilvæga breytingu fyrir Landsvirkjun því um leið og það tekur gildi renna út samningar sem voru gerðir árið 2005 og hafa gilt í 12 ár.

Með nýju fyrirkomulagi samninga þurfa sölufyrirtækin ekki lengur að binda aflkaup sín yfir heilt ár í senn. Rafmagnsnotkun er að jafnaði minni yfir sumarmánuðina og því geta sölufyrirtækin náð verulegri hagræðingu í innkaupum sínum með því að kaupa minna afl á þeim tíma.

Landsvirkjun getur nýtt tækifærið og skipulagt viðhaldsverkefni betur en áður og selt afl með styttri fyrirvara þeim sem á þurfa að halda. Nýja fyrirkomulagið bætir þannig nýtingu orkuauðlinda landsins og eykur sveigjanleika orkufyrirtækja til að bregðast við breyttum aðstæðum í rekstri.