*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 6. júní 2019 07:30

Nýtt fyrirtæki fær 250 milljónir

Lucinity fær 2 milljóna dala fjárfestingu til að koma á markað sjálfvirkari lausn í baráttunni gegn peningaþvætti.

Höskuldur Marselíusarson
Guðmundur Kristjánsson, sem áður en hann stofnaði Lucinity starfaði við tæknivæðingu regluvörslu hjá Citigroup, ásamt Helgu Valfells, framkæmdastjóra Crowberry Capital, sem leiðir fjárfestahópinn bak við fjármögnunina.
Haraldur Guðjónsson

Íslenska félagið Lucinity, sem vinnur að nýsköpun í fjártækni með svokallaðri hjálpargreind, sem aðstoðar starfsfólk að vinsa úr gögnum, hefur fengið 2 milljóna Bandaríkjadala fjármögnun, eða sem nemur um 248 milljónum íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Félagið, sem stofnað var í nóvember síðastliðnum, vinnur að því að koma lausn sinni, ClearLens, á markað en hún á að gera fjármálafyrirtækjum auðveldara að greina misnotkun á þjónustu þeirra til að þvætta peninga.

Crowberry Capital í Reykjavík er í forystu fjárfestahópsins, en meðal annarra stórra fjárfesta er bandaríski sprotafjárfestirinn Preceptor Capital, sem Guðmundur Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Lucinity, segir lengi hafa leitað að góðri lausn í baráttunni gegn peningaþvætti.

Í fjárfestahópnum er einnig fjöldi smærri fjárfesta í New York, London, Tel Aviv, Dubai sem og hér á landi, sem búi yfir reynslu úr regluvörslutæknigeiranum.Guðmundur hefur sjálfur starfað í áratug við tæknivæðingu regluvörslu í fjármálageiranum, lengst sem af yfirmaður samskiptaeftirlits og gervigreindar hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Citigroup.

Eltist við Wolf of Wallstreet gaurana

„Regluvarslan hefur þroskast mikið í fjármálafyrirtækjum heimsins með aukinni sjálfvirkni sem gerir eftirlitið hagkvæmara og betra, en ég sá að ekki hafði sama þróun átt sér stað í baráttunni gegn peningaþvætti,“ segir Guðmundur.

„Ég stýrði deild í nýsköpunarfyrirtæki sem var í því að fara yfir öll símtöl, tölvupósta og spjallforrit miðlara til að reyna að finna Wolf of Wall Street-gaurana í bönkunum, en þú getur rétt ímyndað þér hvað var mikið af þeim þar fyrir hrunið. Við nærri tvöfölduðum veltu deildarinnar á rúmum þremur árum, en síðan var mér boðið að fara yfir til Citigroup, til að byggja upp svipaða lausn þar, og á tveimur árum var ég kominn með 120 manna þróunardeild.“

Guðmundur segir mikil tækifæri vera í því að gera eftirlitið með peningaþvætti hagkvæmara og skilvirkara, því í dag verji fjármálafyrirtæki um 200 þúsund vinnustundum á dag í rannsóknir á flöggunum úr eftirlitskerfum.

„Hjá Citigroup vorum við til dæmis með tífalt stærri deild í baráttunni gegn peningaþvætti heldur en í regluvörslunni, með þúsundir starfsmanna eingöngu í því að fara yfir tilkynningar út úr kerfunum,“ segir Guðmundur sem segir núverandi kerfi byggja á einföldum þumalputtareglum, sem bendi ranglega á peningaþvætti í 99% tilvika.

„Núverandi eftirlitskerfi í fjármálageirunum láta kannski vita ef um 10 þúsund dala færslu er að ræða og þá fer einhver yfir það, en þá auðvitað áttuðu menn sig á því að það væri viðmiðunin svo það var þá lækkað niður í 9.950 dali, og þá þurfti að fara yfir enn fleiri færslur. Það eina sem starfsfólkið í eftirlitinu hefur samt í höndunum er eins og þurrt excel skjal sem oft er erfitt að skilja.

Við erum hins vegar að bæta starfsumhverfi þeirra svo gögnin verða sett fram á skiljanlegri hátt með eins konar hjálpargreind, en einnig getum við greint mun flóknari hegðunarmynstur í gögnunum. Þannig verður erfiðara að fela peningaþvættið fyrir okkar kerfi en því sem nú er verið að beita víðast hvar.“

Guðmundur er sérstaklega þakklátur fyrir stuðning bæði Crowberry Capital, sem Helga Valfells stýrir sem og Gunnlaugs Jónssonar, framkvæmdastjóra Fjártækniklasans, en Lucinity er starfrækt í húsnæði klasans.

„Við værum við ekki hérna á Íslandi með fyrirtækið ef ekki væri fyrir óeigingjart starf Gunnlaugs og fjártækniklasans, sem hefur gert það að verkum að við gátum unnið þetta svona hratt,“ segir Guðmundur sem telur að þótt ýmislegt megi bæta í umhverfi nýsköpunarfyrirtækja hér á landi sé það frekar gott.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.