Já heitir nýtt fyrirtæki sem stofnað hefur verið um nokkra þjónustuþætti sem heyrt hafa undir Símann. Hið nýja félag mun reka upplýsingaþjónustuna 118, annast ritstjórn og útgáfu Símaskrárinnar og rekstur vefsvæðisins Símaskrá.is. Simaskrá.is er jafnframt vefsvæði félagsins en farið er inn á það með því að slá inn slóðina www.simaskrá.is eða www.ja.is. Markmið Já er að veita viðskiptavinum aðgang að áreiðanlegum upplýsingum sem nýtast í dagsins önn, hvenær og hvar sem þeir þarfnast þeirra.

Já er dótturfélag Símans. Starfsmenn eru um 140 en flestir starfa við 118. Starfsstöðvar Já eru í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já, segir í tilkynningu frá félaginu að stofnun sérstaks félags um ofangreinda þjónustuþætti sé í takt við þróunina víða í nágrannalöndunum. Með því að aðgreina þjónustuþætti Símans í sérstakt félag verði skarpari áherslur í rekstri þessarar starfsemi auk þess sem vöruþróun eflist og verði markvissari. Stefnan sé að auka úrval þjónustunnar en megináhersla sé lögð á að viðskiptavinir fái aðgang að áreiðanlegum upplýsingum í dagsins önn á skjótan og þægilegan hátt.

Mælingar IMG Gallup staðfesta að viðskiptavinir 118 eru meðal ánægðustu viðskiptavina Símans. Markmið hins nýja félags er að styrkja þetta jákvæða viðhorf og stækka þann hóp sem nýtir sér þjónustuna. Þjónustan í síma 118 takmarkast síður en svo við að gefa upp símanúmer og heimilisföng. Starfsfólk 118 veitir einnig leiðbeiningar um akstur með hjálp öflugs kortakerfis og svarar ýmsum öðrum fyrirspurnum viðskiptavina.

Stofnun hins nýja félags mun ekki leiða til neinna breytinga á starfsemi ofannefndra þjónustuþátta. Til að einfalda skráningarferli og bæta þjónustu við fyrirtæki hefur verið unnið að samræmingu skráninga í Símaskrána, á símaskrá.is og í 118 og verður haft samband við viðskiptavini vegna hennar.

Nafn hins nýja félags er einfalt og auðvelt í notkun, íslenskt og umfram allt jákvætt. Auðvelt er að tengja nafnið þeirri þjónustu sem fyrirtækið býður.

Stjórn Já skipa Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri markaðssviðs Símans, sem er formaður, Sveinn Tryggvason og Hallmundur Albertsson.