Nýtt lagafrumvarp ríkistjórnarinnar um að stytta fyrningartíma skulda við gjaldþrot niður í tvö ár boðar miklar breytingar á íslenskum lánamarkaði og býður bæði upp á tækifæri og hættur. Þetta segir í Markaðspunkti greiningardeildar Arion banka.

„Þegar til skemmri tíma er litið styrkja þau mjög stöðu skuldara gagnvart lánastofnunum og þá vonandi liðka til fyrir samningum sem forða fólki frá gjaldþroti með hvoru tveggja; afskriftum og endurskipulagningu skulda. Þannig gæti frumvarpið flýtt fyrir lausn á skuldavanda heimilanna.“

Eykur framboð og minnkar eftirspurn á húsnæðismarkaði

Segir að margir muni efalaust grípa tækifærið til þess að hefja nýtt fjárhagslegt líf. Hvort þeir verði margir eigi eftir að koma í ljós.

„Það sem liggur þó fyrir er að ef margir fara gjaldþrotaleiðina mun það skapa söluþrýsting á fasteignamarkaði og mögulega lækkun verðs sem skapar enn frekari hvata til gjaldþrota.

Hér er ágætt að hafa í huga að ein helsta ástæðan fyrir því að húseigendur með verðtryggð lán eru komnir með neikvæða eiginfjárstöðu er sú að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29% frá janúar 2008 en á sama tíma hefur húsnæðisverð aðeins lækkað um 15% að nafnvirði. Nú hefur verðbólga staðnæmst en það er alls ekki loku fyrir það skotið að eiginfjárstaðan geti haldið áfram að versna með áframhaldandi lækkun fasteignaverðs.

Allt veltur þetta á því hve margir vilja losa sig við bæði skuldir og húsnæði og hve margir fá fjármögnun til þess að kaupa fasteignir.

Ljóst er að hin nýju lög munu því bæði auka framboð og minnka eftirspurn eftir húsnæði hérlendis þar sem hvati til útlána hjá fjármálastofnunum mun minnka stórlega. Sú hætta er því raunveruleg að neikvæður „spírall" geti myndast þar sem gjaldþrot og lækkun fasteignaverðs kallast á. Erfitt er þó að meta hversu raunveruleg þessi hætta er,“ segir í markaðspunktinum.

Breytir lánveitingum - aðgangur yngri kynslóða mun skerðast

Til lengri tíma litið munu fjármálastofnanir gera mun meiri kröfu um eigið fé lántakenda að mati greiningardeildar Arion. „Lánamarkaðurinn færist þá aftur til þess sem var fyrir einkavæðingu bankanna – og raunar mun lengra aftur þar sem lán með öðrum veðrétti hverfa úr sögunni og mjög erfitt verður að tryggja viðbótarfjármögnun.

Það felur í raun og veru í sér að hin gamalgróna séreignastefna íslenskra stjórnvalda – þ.e. að öllum sé tryggð lánsfjármögnun til eigin íbúðarkaupa – er í raun liðin undir lok. En aukin krafa um borð fyrir báru í lánveitingum mun gera það verkum að stór hluti fólks mun ekki hafa getu til eigin íbúðakaupa vegna þess að eigið fé skortir – a.m.k. ekki fyrr en hafa leigt og lagt fyrir um einhvern tíma. Þetta þýðir í hnotskurn að aðgangur uppvaxandi kynslóða að lánsfjármagni mun skerðast stórlega miðað það sem hefur tíðkast hérlendis um nokkurn tíma. Hægt er að líta á þá staðreynd sem bæði kost og löst en sínum augum lítur hver silfrið í þeim efnum.“

Erfitt að meta áhrifin vegna annarra lána

Greiningardeildin segir að ákaflega erfitt sé að meta áhrif nýju laganna vegna þess að íslensk heimili bera ýmsar aðrar skuldir en húsnæðislán. Þær gætu kannski ráðið úrslitum um hvort gjaldþrotaleiðin verði farin.

„Hefur fólk til að mynda möguleika á því að þurrka út námslánaskuldir við LÍN, kreditkortaskuldir, yfirdrátt, skattaskuldir og svo framvegis með tveggja ára útlegð? Ef svo er munu áhrifin verða gríðarlega víðtæk og leiða til grundvallarbreytinga á íslenskum þjóðháttum – ekki aðeins að fólk muni aka á eldri bílum og búa í smærri íbúðum heldur munu breytingarnar einnig snúa að fjármögnun framhaldsnáms í útlöndum, stofnun og rekstur einkahlutafélaga, starfsemi einyrkja og svo mætti lengi áfram telja.

Í öllum tilvikum verður erfiðara og dýrara að fá lánsfjármagn til þess að koma þessum hlutum í kring. Hér verður þó geta þess að frumvarpið hefur ekki enn verið gjört lýðkunnugt og því ekki ljóst hvernig lögin verða útfærð.“