Verið er að rýma öll skilgreind hættusvæði við Eyjafjallajökul og eru um 700 manns nú sem óðast að yfirgefa heimili vegna goss sem talið er að sé um það bil að hefjast í jöklinum. Mælingar benda til þess að eldgos sé yfirvofandi í suðvesturhluta Eyjafjallajökuls.

Kristján F. Kristjánsson íbúi í Kirkjulækjarkoti var fyrir nokkrum mínútum að yfirgefa heimili sitt og sagði að fjölskyldan hafi orðið vör við þungar drunur, en áttaði sig ekki á hvaðan þær kæmu.

Greinilega merki um óróa undir Eyjafjallajökli komu fram á jarðskjálftamælum Veðurstofu Íslands um miðnættið. Hafa mælst mjög margir skjálftar og þeir sterkustu um 2,5 að stærð.

Íbúar í Fljótshlíð, á Merkurbæjum, á Markarfljótsaurum og í Landeyjum eiga að fara í fjöldahjálparstöð og skrá sig þar.  Þá hefur verið opnuð fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Hvolsvelli auk fjöldahjálparstöðvar á Heimalandi,  Varmahlíð og Drangshlíð.  Þjóðvegur 1 er núna lokaður við Skeiðavegamót og alveg austur að Skógum.