Stjórnendur Samskipa veittu viðtöku nýju 11 þúsund tonna skipi félagsins við hátíðlega athöfn í Hamborg á föstudag að viðstöddum Ólafi Davíðssyni sendiherra og fleiri góðum gestum. Hlaut skipið nafnið Helgafell og leysir af hólmi gamla Helgafellið á siglingaleiðinni milli Íslands og Evrópu.

Það kom í hlut Arneyjar Guðmundsdóttur, starfsmanns í mötuneyti Samskipa, að skíra nýja skipið en hún var valin til verksins úr hópi allra kvenkyns starfsmanna félagsins á Íslandi í happdrætti sem fram fór við vígslu nýrra höfuðstöðva Samskipa á dögunum.

Fyrsta áætlunarferð nýja Helgafellsins verður 1. mars nk. frá Rotterdam og er það væntanlegt til hafnar í Reykjavík úr jómfrúarferðinni þann 9. mars. Skipið getur flutt 908 gámaeiningar (TEU), eða rúmlega 200 gámaeiningum meira en gamla Helgafellið, og burðargetan er allt að 11.143 tonn. Ganghraði skipsins er allt að 18,4 sjómílur á klst. og það er 138 metra langt og 21 metra breitt, Í áhöfn eru 11 menn, allt Íslendingar, en skipið er skráð í Færeyjum af rekstrarlegum ástæðum.

Helgafellið nýja er systurskip Arnarfellsins, sem Samskip fengu afhent í síðasta mánuði. Bæði skipin voru sérhönnuð fyrir Samskip til að standast siglingar félagsins milli Íslands og Evrópu, jafnframt því sem krafa var gerð um að þau væru þannig útbúin að þau gætu athafnað sig í þröngum höfnum.

Þýska skipasmíðastöðin JJ Sietas tók að sér smíði skipanna, eftir ítarlegan verðsamaburð. og nam kostnaður við hvort skip um 1,7 milljarði íslenskra króna (21 milljón evra). Verkefnið var fjármagnað af HSH Nordbank og eru skipin í eigu skipasmíðastöðvarinnar en Samskip leigja þau til sjö ára, með kauprétti að þeim tíma liðnum.

Með tilkomu nýju skipanna hefur flutningsgeta Samskipa milli Íslands og Evrópu ríflega tvöfaldast. Enn frekari stækkun flutningakerfisins er ákveðin í sumar þegar stærri skip leysa af hólmi gámaskipin Akrafell og Skaftafell.