*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 4. desember 2007 16:56

Nýtt hlutafé í FL Group á genginu 14,7

Ritstjórn

Í tengslum við fjármögnun kaupa FL Group á fasteignum Baugs, verður gefið út nýtt hlutafé að nafnvirði 3.659 milljónir í FL Group á genginu 14,7 til að fjármagna 53,8 milljarða kaupverð. Í tilkynningu kemur fram að hlutirnir verða gefnir út til Baugs Group í skiptum fyrir umræddar eignir. Kaupin eru með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki hluthafafundar, sem verður boðaður í desember 2007.

Í tilkynningu kemur fram að samhliða þessu hefur FL Group ákveðið að bjóða út nýtt hlutafé að markaðsvirði tíu milljarðar króna til fagfjárfesta á genginu 14,7. Baugur Group hefur skuldbundið sig til þess að selja allt að fimm milljarða króna að markaðsvirði í tengslum við fagfjárfestaútboðið til þess að mæta hugsanlegri umframeftirspurn á sama verði. Heildarupphæð hlutafjárútboðsins verður því allt að 15 milljarðar króna og mun Kaupþing banki hafa umsjón með því.

Jafnframt er fyrirhugað forgangsréttarútboð á nýju hlutafé að fjárhæð allt að þrír milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2008. Verða nýir hlutir gefnir út á genginu 14,7 og boðnir hluthöfum í hlutfalli við eign þeirra í félaginu í upphafi forkaupsréttartímabilsins. Baugur Group hefur skuldbundið sig til þess að falla frá forkaupsrétti sínum í þessu útboði.