Hótelkeðjan First Hotels sem rekur 90 hótel víðs vegar um Skandinavíu stefnir að opnun hótels í Hlíðarsmára í Kópavogi á næsta ári að því er fram kemur í fréttatilkynningu samstarfsaðila þeirra hjá Íslandssjóðum.

„Skandinavíska hótelkeðjan First Hotels og FAST-3, fagfjárfestasjóður í stýringu Íslandssjóða, hafa gengið til samstarfs um opnun hótels undir merkjum First Hotels í Hlíðasmára í Kópavogi á næsta ári,“ segir í tilkynningu Íslandssjóða.

Hyggur á opnun fleiri hótela á Íslandi

„Yfir 90 hótel eru starfrækt undir merkjum First Hotels víðsvegar í Skandinavíu en félagið var stofnað árið 1993 og er með höfuðstöðvar sínar í Osló. Félagið hyggur á opnun fleiri hótela á Íslandi á næstu misserum.

Hótelið í Hlíðasmára verður nútímalegt og hagkvæmt og mun First Hotels nýta sér nýjustu tæknilausnir og sjálfvirkni í gestaþjónustu. Mikil atvinnuuppbygging hefur átt sér stað við Smáralind en á næstu árum eru uppi áætlanir um nýja íbúðabyggð í bland við verslun og þjónustu.

Framkvæmdir eru hafnar og er yfirumsjón framkvæmda í höndum Capex Consult en áætlað er að hótelið taki á móti fyrstu gestum sínum í árslok 2017.“

Dreifing gistirýma á höfuðborgarsvæðinu

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir spennandi að ná þessum samningi og um sé að ræða góða viðbót við íslenska hótelflóru.

„Það er jákvætt að sjá dreifingu gistirýma á höfuðborgarsvæðinu sem getur mætt hraðri fjölgun ferðamanna til landsins,“ segir Kjartan Smári.

„Ljóst er að frekari fjárfestinga er þörf og ánægjulegt að geta boðið viðskiptavinum okkar að taka þátt í þeirri uppbyggingu með okkur.“