Bragi Hinrik Magnússon og Þór Bæring Ólafsson sem reka ferðaskrifstofuna Gaman Ferðir stefna að opnun hótels í Bæjarhrauni 4 í Hafnarfirði í næsta mánuði.

Mun það bera nafnið Hótel Hellisgerði, en þar verða 38 herbergi af ýmsum stærðum og gerðum en öll herbergin eru með baðherbergi og eldhúsi.

„Við vildum tengja nafnið á hótelinu við Hafnarfjörð og því varð Hótel Hellisgerði fyrir valinu“ segir Bragi Hinrik Magnússon í fréttatilkynningu.

Í Hellisgerði afar fallegur almenningsgarður í Hafnarfirði en hann er þekktur fyrir miklar hraunmyndanir sem gefa honum óvenjulegt yfirbragð að því er segir í tilkynningunni.

Rétt við Kaplakrika

Bæjarhraun er við Kaplakrika og Fjarðarhraun sem er ein aðalgatan í gegnum bæinn meðan almenningsgarðurinn Hellisgerði er í gamla bænum nær sjónum við Reykjavíkurveginn.

Það tekur ekki nema 25 mínútur að keyra frá flugvellinum í Keflavík á hótelið og svo er miðbær Reykjavíkur í tæplega 10 km fjarlægð að því er fram kemur í tilkynningunni.

Strætósamgöngur frá hótelinu eru mjög góðar og því mjög auðvelt að komast á milli staða. Í næsta nágrenni við hótelið eru helstu matvöruverslarnir, veitingastaðir, bakarí og Vínbúðin meðal annars.

Tækifæri í ferðamennsku í Hafnarfirði

Að sögn Braga Hinriks Magnússonar sjá menn sömuleiðis tækifæri í að byggja upp meiri ferðamennsku í Hafnarfirði.

„Hér í Hafnarfirði og á svæðinu í kring eru miklir möguleikar þessu tengdu og þetta verkefni gæti verið eitt skref í þá átt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu hér,“ segir Bragi Hinrik.

Hótel Hellisgerði verður opnað 15. maí og er þegar byrjað að taka á móti bókunum á vefsíðu hótelsins, www.hotelhellisgerdi.is.

Til viðbótar við hótelreksturinn er ætlunin að bjóða upp á einhverja afþreyingarkosti og er verið að skoða ýmsar hugmyndir í því sambandi.