Hafin er sala á nýju húðlyfi frá lyfjafyrirtækinu Actavis. Um er að ræða samheitalyfið Terbinafine, sem sett var á markað nýlega þegar einkaleyfisvernd þess rann út. Lyfið er selt til 15 Evrópulanda en fleiri lönd munu bætast við fyrir árslok. Fyrstu pantanir námu um 10 milljónum taflna og reiknað er með að Terbinafine verði söluhæsta húðlyf Actavis þrátt fyrir að það verði ekki meðal söluhæstu lyfja allra lyfjaflokka félagsins.

Terbinafine er vel þekkt húðlyf og mikið notað gegn sveppasýkingum í húð og nöglum. Terbinafine frá Actavis er í töfluformi og í tveimur styrkleikum en því til viðbótar vinnur Actavis að þróun á Terbinafine-kremi. Lyfið kom fyrst á markað í Bretlandi árið 1990 en einkaleyfi þess rann nýlega út. Framleiðsla og pökkun lyfsins fer fram hjá Actavis á Möltu. Medis, dótturfélag Actavis, mun sjá um sölu lyfsins til þriðja aðila í Evrópu en Actavis Nordic, dótturfyrirtæki Actavis, mun annast sölu eigin vörumerkis á Norðurlöndum. Lyfið hefur verið á markaði á Íslandi í nokkur ár.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu til þriðja aðila hjá Actavis, segir alltaf mikinn viðburð hjá félaginu, þegar ný lyf séu sett á markað, og sérstaklega ánægjulegt hvað markaðssetning á Terbinafine nái til margra landa strax í upphafi. ?Með þessari markaðssetningu er fyrirtækið að fara inn á svið, sem við höfum ekki verið sterk á, þ.e. framleiðslu húðlyfja. Terbinafine breikkar þannig lyfjaúrval fyrirtækisins. Þetta er í annað skipti sem markaðssetning á nýju lyfi fer fram frá verksmiðju Actavis á Möltu og hefur starfsfólkið þar staðið sig afar vel í undirbúningi og framkvæmd hennar.?