Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að nýtt húsnæði sem byggt verður um starfsemi Landspítalans gefi starfsfólki hans nýja von.

„Starfsfólki svíður það ef starfsaðstæður þess munu ekki breytast og batna. Heilbrigðisstarfsfólk vill gera sitt besta og veita sem besta þjónustu. Ef aðbúnaður og tæki eru þannig að það er ekki lengur hægt þá er það mjög slæmt fyrir móralinn. Fólk sér von í nýjum byggingum og tækjum og þess vegna er ég mjög ánægður með það að endurbygging Landspítala sé komin í gegnum skipulag,‟ segir Páll.

Hann segir að það sé líka hugur í fólki vegna þessarar frábæru þingsályktunar sem var samþykkt í vor þar sem ákveðið var að nú yrði næsta verkefni að leita leiða til að fjármagna uppbyggingu. „Þegar það er komin skýr leið til að fjármagna þetta og við erum farin af stað þá blæs það fólki kraft og von í brjóst,“ segir Páll.

Ítarlegt viðtal við Pál Matthíasson birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .