Vinna við frumvarp til laga um nýtt húsnæðisbótakerfi stendur yfir innan félagsmálaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram á vorþingi, að því er kemur fram í svari Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Geirssonar.

Í svarinu segir að frumvarp til laga um húsnæðisbætur muni byggjast í meginatriðum á tillögum verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála frá vori 2014 sem og tillögum starfshóps um húsnæðisbætur frá maí 2012 þar sem markmiðiðverður að draga úr húsnæðiskostnaði efnaminni heimila án tillits til fjölskyldugerðar.

Áfram er gert ráð fyrir tekjuskerðingarmörkum sem miðast við fjölda heimilismanna, en með tekjum verði átt við allar skattskyldar tekjur sem og skattfrjálsar tekjur vegna launa frá alþjóðastofnunum.

Gert er ráð fyrir að nýtt kerfi komi til framkvæmda í ársbyrjun 2016.