*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 24. mars 2015 09:14

Nýtt Icelandair hótel við Mývatn

Icelandair hótel hafa keypt Hótel Reykjahlíð í Mývatnssveit.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Icelandair hótel hafa fest kaup á fasteigninni sem nú hýsir Hótel Reykjahlíð við Mývatn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hótelið telur níu herbergi og veitingasal og er staðsett á einstökum útsýnisstað við vatnið, í næstu grennd við þjónustukjarna Mývatnssveitar. Áform eru um að stækka hótelið.

„Fjölgun herbergja ein og sér er ekki meginmarkmið Icelandair hótela. Við viljum hinsvegar leggja metnað í markvissa uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi með því að auka gæði hótelgistingar og veitingaþjónustu þar sem við stígum niður fæti,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela.

Icelandair hótel fá Hótel Reykjahlíð afhent nú í haust, en fram að þeim tíma verður rekstur hótelsins í höndum fyrrum eigenda þess sem jafnframt reka hótel Reynihlíð við Mývatn.